Segir Vinnumálastofnun ekki standast áhlaup listamanna

Mynd með færslu
 Mynd: Aníta Björk Jóhannsdóttir
Illa gengur hjá listamönnum að nýta sér úrræði stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins. Hátt í sjötíu prósent félagsmanna hjá Bandalagi íslenskra listamanna sem hafa sótt sér aðstoðar til Vinnumálastofnunar hafa ekki fengið lausn sinna mála mörgum vikum síðar. Engin svör hafa borist frá Vinnumálastofnun við þeim vandræðum að afgreiða umsóknir listamanna.

Þetta kemur fram í minnisblaði Erlings Jóhannessonar, forseta BÍL, til velferðarnefndar Alþingis. 

Þar segir enn fremur að sambærilegt minnisblað hafi verið sent menntamálaráðuneytinu og efni þess verið ítrekað á fundum með starfsmönnum ráðuneytisins. Þá hefur BHM verið haldið upplýstu „um þann tappa sem myndast hjá Vinnumálastofnun í framgangi listamanna hjá stofnuninni.“

Í minnisblaðinu segir að BÍL hafi gert könnun til að fá einhverja hugmynd um árangur listamanna. Hún leiddi í ljós að 70 prósent þeirra sem sótt hafa sér aðstoðar hafi ekki fengið lausn sinna mála mörgum vikum síðar. „Það er svakalegt hlutfall,“ segir Erling í minnisblaðinu.

Hann telur að þetta megi rekja til flækjustigs í starfsumhverfi listamanna,  það sé það sem vefjist fyrir ferlum Vinnumálastofnunar. „Vandamálið er greinilega að Vinnumálastofnun stenst ekki áhlaupið.“

Hann leggur til að komið verði á tímabundnu eingreiðslukerfi til að stytta röðina. „Hvernig það er útfært eða hvaða nafni því væri gefið geta menn fundið út úr á grunni síns pólitíska útsýnis.“ Við þessar fordæmalausu aðstæður þurfi hins vegar að greiða fyrst og reikna svo.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi