Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segir mögulega ekki þörf á að grafa í gegnum skriðuna

27.05.2020 - 16:08
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Gripið hefur verið til ýmissa ráða til þess að tryggja áframhaldandi fengsæld í Hítará eftir að stór skriða breytti farvegi hennar fyrir tveimur árum. Leigutaki að Hítará segir að komandi sumar eigi eftir að skera úr um hvort skriðan hafi bitnað jafn illa á veiði og óttast er.

Eftir berghlaupið fann Hítará sér annan farveg og sameinaðist hliðaránni Tálma. Berghlaupið myndaði þá haft í ánni sem hindraði fiskgengi ofan skriðunnar. Orri Dór Guðnason, leigutaki Hítarár, segir hins vegar búið að brjóta haftið og að áin sé nú fiskgeng upp að Hítarvatni. Eins hafi verið gripið til fleiri úrræða til að tryggja sömu veiði og áður en skriðan féll.

„Það hefur verið sett mikið fé og áhersla á seiðasleppingar uppi á efri svæðum sem ekki hefur verið gert áður og þetta er gert til þess að vinna upp þau svæði sem glötuðust við skriðuna,“ segir hann.

Veiðifélag Hítarár hefur sóst eftir því að fá leyfi og fjármagn til þess að grafa í gegnum skriðuna og endurheimta þannig fyrri farveg. þetta er gert þar sem talin er hætta á að það dragist úr veiði á næstu árum, í ljósi þess að hrygningarsvæði séu horfin og fiskur eigi erfitt með að ganga upp í ánna. Tillaga að deiliskipulagi sem gerir ráð fyrir þessu er til kynningar og ferlið því langt á veg komið.

Fæst reynsla á nýjan farveg fyrst í sumar

Orri segir hins vegar ekki víst hvort þörf sé á því að grafa í gegnum skriðuna. Þurrkatíð síðasta sumars hafi haft svo slæm áhrif á veiði að nú fyrst fáist reynsla á hinn nýja árfarveg. Kalt vor og góður vatnsbúskapur lofi þá jafnframt góðu fyrir veiði næstu mánaða.

„Já, eigum við ekki að segja sem svo að þetta sumar sem nú er að ganga í hönd muni leiða þetta í ljós. Það eru allar líkur á því að það muni skera úr um það hvort áin er laxgeng eða ekki. Ég hef alla trú á að svo sé.“