Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Samstarf við HA um eflingu norðurslóðlastarfs

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Háskólanum á Akureyri verður falið að auka þekkingu háskólasamfélagsins á Íslandi í málefnum norðurslóða, samkvæmt þjónustusamningi sem undirritaður var þar í morgun. Utanríkisráðuneytið veitir 50 milljónir króna til verkefnisins næstu tvö árin.

Frá því Ísland tók við formennsku í Norðurskautsráðinu vorið 2019 hefur talsverð vinna, sem því tengist, farið fram í Háskólanum á Akureyri. Eyjólfur Guðmundsson rektor segir að þessi samningur milli háskólans og utanríkisráðuneytisins sé ákveðin viðurkenning á því.

Sérfræðingar í HA leiða vinnu í málefnum norðurslóða

„Starfsfólk okkar hefur leitt formennsku í tilteknum sérfræðingahópum, vinnuhópum sérfræðinga, sem hafa verið að vinna að málefnum norðurslóða. Bæði heilbrigðismálefnum og samfélögum. Og þetta leyfir okkur sem háskólastofnun að taka fullan þátt í slíku starfi á meðan á formennskunni stendur," segir hann.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Utanríkisráðherra og rektor HA undirrita samninginn

Fimmtíu milljónir króna á tveimur árum

Samningurinn er til tveggja ára og utanríkisráðuneytið veitir fimmtíu milljónir króna til skólans á samningstímanum. Eyjólfur segir fjármagnið nýtast til greiðslu fyrir sérfræðiþekkingu og vinnu við sérfræðistörf. Þá auðveldi þetta og styrki samskipti nemenda og kennara við aðrar háskólastofnanir. „Ásamt því að styðja við viðburði og annað slíkt sem verður núna á meðan á formennskunni stendur."

Tryggir aðgengi að bestu upplýsingum og þekkingu 

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir aðgengi að bestu mögulegu upplýsingum og þekkingu, lykilatriði í starfsemi og ákvarðanatöku innan Norðurskautsráðsins. „Og við teljum að við fáum það með því að semja við Háskólann á Akureyri og þá aðila sem hér eru. Hér er bæði þekkingin, en ekki síður áhuginn og krafturinn og það er nokkuð sem við viljum nýta og höfum gert og höldum áfram að gera."