Ráðherrar ræddu afléttingu ferðatakmarkana

27.05.2020 - 01:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og japanskur kollegi hans Toshimitsu Motegi ræddu saman á símafundi í gær. Neyðarstigi vegna kórónuveirufaraldursins hefur verið aflétt í báðum löndum.

Frá þessu er greint á vef Utanríkisráðuneytisins.  Japönsk stjórnvöld hafa hrósað Íslendingum fyrir góð viðbrögð í viðureign við veiruna. 

Ráðherrarnir gerðu möguleikana á því að aflétta ferðatakmörkunum gagnkvæmt að umtalsefni og hvernig hægt væri að virkja önnur samskipti svo fljótt sem verða mætti.

Viðskipti við Japan eru Íslendingum mikilvæg og Guðlaugur Þór segir jafnframt á Facebook síðu sinni að þýðingarmikið sé að efnahagssamráð milli ríkjanna sem lagður var grunnur að á síðasta ári geti hafist á ný hið fyrsta.

Utanríkisráðherrarnir eru sammála um hve aðkallandi sé að efla enn góð samskipti ríkjanna enda eru vonir bundnar við að áðurnefnt samráð geti síðar leitt til fríverslunarsamnings milli ríkjanna. 

Utanríkisráðherra þakkaði japönskum stjórnvöldum sérstaklega fyrir að hafa fært Landspítalanum veirulyfið Avigan að gjöf. Það barst Landspítala á mánudag en Ísland var eitt fyrsta landið utan Japan til að fá lyfið.

Að lokum ræddu Guðlaugur Þór og Motegi um samvinnu ríkjanna varðandi skipulag þriðju vísindaráðstefnu Norðurslóða sem fram fer í Tókýó í nóvember.  

 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi