Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Indverjar beðnir um að skila „njósnadúfu“

27.05.2020 - 14:22
Erlent · Dýr · Fuglar · Indland · Pakistan
Mynd með færslu
 Mynd: Razvan Socol - Wikimedia Commons
Pakistanskur dúfnaeigandi biðlar nú til Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, um að fá aftur eina af dúfum sínum, sem þessa dagana er í varðhaldi á Indlandi eftir að hafa verið ákærð fyrir njósnir.

Maðurinn býr í þorpi skammt frá landamærum Indlands og Pakistan og sleppti dúfum sínum lausum til að fagna Eid al-Fitr, hátíðarhöldum sem marka endalok hins heilaga föstumánaðar ramadan.

Það voru svo þorpsbúar Indlandsmegin landamæranna sem á mánudag fönguðu dúfuna og afhentu hana lögreglu. Dúfan reyndist vera með hring sem talnaruna var grafin í á öðrum fæti og segjast indversk lögregluyfirvöld nú vinna að því að ráða kóðann. Dúfnaeigandinn segir talnarununa hins vegar vera farsímanúmer sitt.

BBC greinir frá og hefur eftir pakistönsku dagblaði að dúfnaeigandinn Habibullah eigi og haldi 12  dúfur sem hann líti á sem friðartákn. Segir Habibullah indversk yfirvöld eiga að hætta að fara illa með saklausa fugla.

Þetta er nefnilega ekki í fyrsta skipti sem pakistönsk dúfa lendir í vanda hjá indverskum yfirvöldum. Í maí 2015 var hvít dúfa handsömuð eftir að 14 ára drengur í þorpi við landamærin kom auga á hana og ári síðar lenti önnur dúfa í vanda eftir að hún reyndist bera miða með hótunum gegn forsætisráðherra Indlands.
 

Anna Sigríður Einarsdóttir