Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Íhugar að moka yfir náttúrulaug vegna yfirgangs

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Landeiganda í Skagafirði ofbýður hvernig Íslendingar ganga um Fossalaug. Honum er skapi næst að moka yfir hana, yfirgangurinn sé það mikill.

Það eru margar heitar laugar frá miðöldum í Skagafirði. Árið 2011 var Fosslaug endurgerð, umgengnin var fín til að byrja með en nú er það eitthvað að breytast.

Munntóbaksbréf og mannaskítur

„Það er mikið af munntóbaksbréfum um allt hérna og svo er fólk búið að vera að kúka og skilja eftir klósettpappír um allt,“ segir Dagur Torfason landeigandi. Hann telur Íslendinga eiga í hlut. Sóðaskapur hafi aldrei verið vandamál áður og ekki séu margir erlendir ferðamenn á ferðinni núna.

Það sé miður að fólk gangi svona um: „Það er nóg af afþreyingu sem kostar eitthvað en hérna er svo eitthvað sem er ókeypis og þá þarf að ganga svona yfir allt.“

Allt að hundrað manns koma í laugina daglega

Félagið Á Sturlungaslóð gerði laugina upp en hún er einn viðkomustaður þeirra sem vilja fara á söguslóðir Sturlunga í Skagafirði. Þar er hvorki starfsemi né aðstaða og treyst á góða umgengni.

Dagur segir vinsældir laugarinnar hafa komið á óvart. Allt að hundrað manns fari nú í laugina daglega sem er talið mega rekja til færslna á samfélagsmiðlum.

Ekið á gönguslóða og tjaldað í leyfisleysi

Þrátt fyrir fjöldann er ekki mikið um fólk skilji eftir sig annað rusl. Dagur segist ekki vita hvort ruslið fjúki burt, það sé týnt upp eða hvort því sé hreinlega hent í ána.

Fólk hiki hins vegar ekki við að fara um þrjú lokuð hlið, aka eftir merktri gönguslóð og tjalda þátt fyrir greinilegt skilti sem segi að það sé bannað. Yfirgangurinn sé svo mikill að honum lítist ekkert á að Íslendingar ætli að ferðast innanlands í sumar og íhugar að fylla upp í laugina.

„Ég ætla að leyfa þessu aðeins að þróast og athuga hvort þessi umfjöllum hafi eitthvað að segja, að fólk fari að passa hvert annað, annars verður bara sett mold í laugina og sáð yfir,“ segir Dagur.