Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Helgireitur frumbyggja eyðilagður af Rio Tinto

27.05.2020 - 02:35
Mynd með færslu
 Mynd: The Puutu Kunti Kurrama and Pini
Helgar minjar frumbyggja í helli í Vestur Ástralíu voru eyðilagðar um helgina til þess að stækka járngrýtisnámu Rio Tinto á svæðinu. Hellirinn, sem er í Juukan gili, er einna elsti varðveitti bústaður fólks af ættum Puutu Kunti Kurrama og Pinikura þjóðanna í Ástralíu. Miðað við rannsóknir virðist hafa verið búið í honum 46 þúsund ár.

Rio Tinto hlaut leyfi yfirvalda til þess að leggja svæðið undir sig árið 2013. Leyfið fékkst á grundvelli laga um arfleifð frumbyggja Ástralíu frá árinu 1972. Lögin eru höll undir námuframkvæmdir að sögn Guardian. Ári eftir að leyfið var gefið hófust fornleifarannsóknir á svæðinu, til þess að bjarga því sem hægt var að bjarga. Við uppgröftinn kom í ljós að þetta var tvöfalt eldri mannabústaður en áður var talið. Eins fannst fjöldi minja, þeirra á meðal helgar minjar þjóðanna. Merkust minjanna var um fjögur þúsund ára gömul fléttuð mannshár. Þau voru fléttuð úr mörgum einstaklingum. Með erfðarannsóknum var hægt að rekja hárin beint til afkomenda þeirra af ættum Puutu Kunti Kurrama og Pinikura sem eru á lífi í dag. 

Mynd með færslu
 Mynd: The Puutu Kunti Kurrama and Pini
Meðal minja af svæðinu.

 

Nýjar upplýsingar breyta hins vegar engu samkvæmt lögunum sem leyfi Rio Tinto byggir á. Fyrirtækið þurfti því ekki að hefja viðræður upp á nýtt á grundvelli þeirra. Burchall Hayes, stjórnandi samtaka fólks af ættum Puutu Kunti Kurrama og Pinikura, sagði í samtali við Guardian að þetta væri einn allra helgasti reitur Pilbara svæðisins. Það væri dýrmætt að eiga minjar á borð við fléttuðu hárin, sem hægt er að rekja til Kurrama þjóðarinnar. Það sé eitthvað sem hægt er að vera stoltur af, en einnig sorglegt. „Hvíldarstaður þess síðustu 4.000 ár er ekki lengur á sínum stað,“ hefur Guardian eftir Hayes.

Unnið að breytingum laganna

Unnið hefur verið að breytingum á lögum um arfleifð frumbyggja Ástralíu allt frá árinu 2012. Drögum var hafnað árið 2014 eftir að þingmenn sögðu þau ósanngjörn í garð frumbyggja. Verkamannaflokkurinn sagði endurbætur laganna í forgangi fyrir kosningarnar 2017. Drög að nýju frumvarpi eru tilbúin, en þau verða lögð fyrir ástralska þingið síðar á árinu. Að sögn Ben Wyatt, ráðherra málefna frumbyggja í Ástralíu, gefa nýju lögin möguleika á að áfrýja eða breyta útgefnum leyfum fyrir eyðileggingu á svæðum frumbyggja. 

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV