Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Grafa í gegnum skriðu til að endurheimta farveg Hítarár

27.05.2020 - 09:26
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Grafa á í gegnum skriðu sem féll í Hítardal fyrir tveimur árum til að endurheimta fyrri farveg Hítarár. Með því á að ná aftur sömu laxveiði úr ánni og áður en skriðan féll.

Skriðan er ein af þeim stærstu sem fallið hafa á sögulegum tíma á Íslandi. Hún er rúmur kílómetri á breidd og hljóp um einn og hálfan kílómetra. Með því stíflaðist Hítará og lónið Bakkavatn myndaðist. Áin fann sér farveg niður fyrir skriðuna og sameinaðist hliðaránni Tálma.

Hítará er þekkt sem ein af verðmætustu laxveiðiám landsins. Eftir berghlaupið eru mikilvæg hrygningarsvæði nú hins vegar þurr eða undir skriðunni. Eins hefur göngufiskur ekki lengur aðgengi að um tíu kílómetra kafla í Hítará, frá Tálma að Hítarvatni.

Því má búast við að veiði hraki innan nokkurra ára. Ef tryggja á sömu fengsæld eru kostirnir tveir, að opna farveg Hítarár að nýju eða laga farveg Tálma. Ólafur Sigvaldason, formaður veiðifélags Hítarár, segir þann kost líka kosta sitt.

„Það er kostnaðarsamt líka, ef það á að gera það svæði allt laxgengt eins og það var áður. Svo erum við búin að tapa svæði sem þornaði upp, það er alveg um tuttugu prósent af gömlu Hítará, og það er dýrmætt að ná því aftur,“ segir Ólafur.

Því á að grafa í gegnum skriðuna. Skipulagsstofnun mat framkvæmdina ekki háða mati á umhverfisáhrifum og deiliskipulagstillaga er nú til kynningar. Vonast er til að áin renni í sínum gamla farveg að ári. Skurðurinn fylgir gamla farveginum og verður sex metra djúpur og átján metra breiður. Grafa þarf upp allt að 350 þúsund rúmmetra af jarðveg. Ólafur segir framkvæmdina líklega kosta yfir hundrað milljónir.

„Það er svona, þetta er líklega hundrað plús, milljónir, með öllu. Það er nú þegar búið að kosta okkur talsvert, þetta skipulagsferli allt saman.“

Sótt var um sextíu milljóna framlag úr Fiskræktarsjóði. Að öðru leyti borgar veiðifélagið sjálft tilkostnað framkvæmdarinnar. Ólafur segir að í samanburði við það tap sem félagið yrði annars fyrir þá sé fjárfestingin þess virði.

Fréttin hefur verið uppfærð: Tekið var fram að um tuttugu kílómetrar væru ekki fiskgengir. Hið rétta er tíu kílómetrar.