Getum ekki lofað því að taka alla í fangið

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Fjármálaráðherra segir ekki óeðlilegt að bankar séu ekki farnir að veita brúarlán, þótt níu vikur séu liðnar frá því að hann kynnti lánin sem eitt af efnahagsúrræðum ríkisstjórnarinnar. Brúarlánin séu mikilvægt úrræði, sérstaklega þar sem bankar hafi ekki lækkað vexti á lánum til fyrirtækja í samræmi við stýrivaxtalækkun Seðlabankans. Ríkisstjórnin geti ekki lofað að taka alla í fangið.

„Það er væntanlega að hluta til að minnsta kosti vegna þess að útlánatapsáhættan er að vaxa og þá skiptir gríðarlegu máli að það sé til staðar lánaúrræði með ríkisábyrgð sem tryggir fyritækjum sem uppfylla skilyrðin hagstæðari vexti en ella myndu bjóðast,“ segir Bjarni. „Þegar við horfum á þetta í þessu samhengi þá held ég að þetta sé gríðarlega mikilvægt úrræði sem núna er búið að ganga frá öllum formsatriðum fyrir og ég vonast til þess að bankarnir geti nýtt það og í þágu viðskiptavina sinna,“ segir hann.  

Nú hefur heyrst frá fyrirtækjum að þeim finnist skilyrðin vera of ströng - kemur til greina að endurskoða þau komi í ljós að það er ekki eftirspurn eftir þessum lánum þótt þörfin sé til staðar?

„Já þessi umræða átti sér stað þegar málið var í þinglegri meðferð en þetta var niðurstaðan. Svo eru bankarnir sjálfir í miklum færum til með mjög sterka stöðu til að sinna sínum viðskiptamönnum. Eflaust verður það þannig að það fá ekki allir aðstoð sem eru að óska eftir henni og við getum ekki lofað því að taka alla í fangið og bjargað hvers manns vanda en með ákveðnum skilyrðum getum við boðið ríkisábyrgð þar sem bankarnir taka í sumum tilvikum mótáhættu en í sumum tilvikum ætlum við að taka alla áhættuna“ segir hann.

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi