Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gabbið óvenjulegt en ekki einsdæmi

27.05.2020 - 15:53
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Lögreglan á Suðurlandi hefur lokið skýrslutöku yfir manni sem hringdi í neyðarlínuna í nótt og tilkynnti um að hann hefði séð mann, sem hann nafngreindi, falla í Ölfusá. Í ljós kom að maðurinn nafgreindi sjálfan sig og fylgdist með leitinni frá árbakkanum. Hann á yfir höfði sér sekt eða ákæru, að sögn yfirlögregluþjóns. Málið sé óvenjulegt en ekki einsdæmi.

Tilkynningin barst klukkan hálf eitt í nótt og um leið voru björgunarsveitir, lögregla, sjúkraflutningalið og slökkvilið kallað út enda má engan tíma missa í slíkum útköllum. Byrjað var að leita á bátum og meðfram ánni. Tveimur tímum síðar kom í ljós að sá sem tilkynnti um málið hafði falið sig í runna við ána og fylgst með leitinni. 

Viðurlög við gabbi sem þessu eru sekt og allt að þriggja mánaða fangelsi og segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn, manninn geta átt von á því. 

„Það er sem sagt búið að taka skýrslu af þessum manni og hann er frjáls ferða sinna frá okkur. Hann gaf sínar skýringar á símtalinum og málið telst upplýst,“ segir Oddur í samtal við fréttastofu. 

Þó að málið sé óvenjulegt er það ekki einsdæmi. Árið 2014 sviðsetti maður atburð þar sem hann var talinn hafa ekið í ána en fannst daginn eftir við flugvöllinn á Selfossi eftir mikla leit. Þá hafði Oddur rætt það við ættingja mannsins að hann væri að öllum líkindum látinn.  

„Hann gaf sig fram við leitarmenn og það var öllum ljóst að sá maður hafði aldrei farið í ána þegar það var farið að skoða það mál,“ segir Oddur.

Ölfusá hefur að geyma margar harmsögur. Nokkuð reglulega í gegnum tíðina hefur fólk, ásamt ökutækjum, farið í ána. Undir Ölfusárbrú er mikið dýpi og gríðarstór hylur svo það heyrir til undantekninga að fólk bjargist úr ánni eða finnist á lífi. Tilkynningar af þessu tagi eru því alltaf teknar alvarlega.