Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fullsödd af sóðaskap næturgesta í Hrunalaug

Mynd með færslu
 Mynd: aðsend mynd
Partýstand og óþrifnaður hefur verið við Hrunalaug við Flúðir í vor. Landeigendur eru þar á vöktum um nætur til að vísa fólki burt. Þeir ætla að setja upp búnað svo að hægt verði að tæma laugina þegar þurfa þykir.

Hrunalaug er gömul, hlaðin laug og sprettur heitt vatn upp í botni hennar. Helena Eiríksdóttir, einn landeigenda, segir að ekki hafi verið mikið af laugargestum til vandræða um nætur í vetur. Ástandið hafi versnað mjög síðan um páska. „Aðkoman þarna á hverjum einasta degi hefur verið þannig að það var allt í dósum, glerbrotum, ælur, alls kyns ófögnuður sem að var ekki mjög skemmtilegt að þurfa að þrífa upp. Svo einn sunnudagsmorgunn þá eiginlega gekk þetta fram af mér,“ segir Helena. 

Hafa vísað nokkur hundruð næturgestum frá

Síðan þá hafa Helena og eiginmaður hennar verið á vakt við laugina eftir klukkan tíu á kvöldin um helgar og ekki hleypt neinum ofan í og skipta þau hundruðum sem hefur verið vísað frá. „Fyrstu helgina sem við vorum þarna þá voru þetta bara ansi margir tugir og þetta var nota bene á meðan enn var samkomubann,“ segir hún. Málin hafi því verið tilkynnt til lögreglu og Almannavarna. „Við erum búin að ýta burtu ansi mörg hundruð manns núna á þessum dögum sem við höfum verið þarna,“ segir Helena.

Mynd með færslu
Svona var umhorfs við laugina á dögunum.  Mynd: Aðsend mynd

Segir flesta sýna sjónarmiði landeigenda skilning

Lang oftast tekur fólk því vel þegar landeigendur útskýra fyrir þeim að ekki megi fara í laugina eftir klukkan tíu á kvöldin. „En svo eru alltaf þessar blessuðu undantekningar sem að eru þarna með frekju og stæla og skít við okkur. Sumir efast um eignarhald okkar og vilja meina að allir megi ganga þarna um og gera það sem þeir vilja en það er auðvitað ekki þannig.“

Setja upp búnað svo hægt verði að tæma laugina

Helena og eiginmaður hennar hafa ekki hugsað sér að vera á næturvöktum við laugina til frambúðar og til að halda fólki í burtu á nóttunni ætla landeigendur að láta leggja rör frá upptökum heita vatnsins og niður í kaldan læk þar fyrir neðan. „Þá getum við skrúfað frá og fyrir og stjórnað umferð og hversu mikil hún er og hvenær. Þá getum við náð tökum á þessu á einfaldari hátt.“

Elstu hleðslur laugarinnar eru síðan um 1890 og voru gerðar af langafa Helenu. Laugin var þá notuð til þvotta og baða. Um 1935 var steypt ker og kofi byggður og voru kindur þvegnar í henni með sérstöku efni, vegna fjárkláða. Helena segir að langflestir sem komi í laugina komi til að njóta náttúrunnar og séu til fyrirmyndar og hafi gaman af því að heyra sögu hennar. Það sé fólkið sem sé undantekning á þeirri reglu, og gangi illa um landið, sem valdi áhyggjum.

Mynd með færslu