Framboð Guðmundar Franklíns og Guðna staðfest

27.05.2020 - 08:51
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett
Dómsmálaráðuneytið hefur staðfest að tveir verði í kjöri til forseta Íslands; Guðmundur Franklín Jónsson og Guðni Th. Jóhannesson. Þetta kemur fram í auglýsingu sem birtist í Lögbirtingablaðinu í dag. Frestur til að skila framboðum rann út á föstudag.

Forsetakosningar verða laugardaginn 27. júní. 

Guðmundur Franklín sagði í Silfrinu um helgina að umræðan um orkupakka 3 hefði ýtt honum út í framboð. Hann teldi að hægt væri að nýta málskotsrétt forseta á ýmsan hátt. Oft myndist gjá milli þings og þjóðar og það væri forsetans að brúa það bil.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sagðist ekki telja að sá sem gegndi embættinu ætti að gefa út skýrt hámark eða lágmark á fjölda undirskrifta sem þyrfti til að forseti beitti málskotsrétti. Það færi eftir efni og aðstæðum hverju sinni. „Þetta snýst ekki um að ég vilji ekki beita synjunarvaldi.“ 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi