Ekki útilokað að nemendur hafi hjálpast að í prófum

27.05.2020 - 17:24
Mynd með færslu
 Mynd: Andrea Piacquadio - Pexels
Kennarar og skólastjórnendur segja að framkvæmd heimakennslu og prófa í framhaldsskólum og háskólum á heildina litið hafa gengið vel. Erfitt sé að ganga úr skugga um að nemendur styðjist ekki við hjálpargögn, en kennarar hafi ýmsar leiðir til að meta úrlausnir nemenda, vakni grunur um misferli.

Kennsla í framhaldsskólum og háskólum fór fram í fjarnámi í vor vegna farsóttarinnar. Kennarar þurftu á augabragði að breyta námsmati og kennslu í takt við samkomutakmarkanir. Snædís Snæbjörnsdóttir spænskukennari í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ segir að kennsla hafi almennt gengið vel og einkunnir nemenda séu ekki lægri en í venjulegu árferði. 

„Það að prófin voru tekin heima þýddi að maður vissi að nemendur gátu flett upp og maður vissi ekkert  alveg alltaf hver var hinu megin. Maður getur ekki útilokað það að nemendur séu að tala saman eða að það sé hugsanlega einhver sem kann meira sem er að hjálpa þeim, en maður reyndi þá að einhverju leiti að semja prófin með það í huga. Að minnsta kosti það að maður vissi að þau gætu flett upp,“ segir Snædís.

Gagnapróf og símat hugsanlega framtíðin

Hún segir að það að nemendur hafi haft aðgang að námsefninu sé ekki endilega slæmt. Færni nemenda sé hægt að meta út frá því hvernig þeir nálgast upplýsingar og koma þeim á framfæri.

„Algjörlega, og það er kannski bara í takt við breytta tíma að það er kannski orðið gamaldags að ætlast til þess að nemendur læri allt utan að og nútímafærni er meira það að geta leitað sér upplýsinga. En maður vill samt að nemendur kunni sumt. Ég kenni tungumál svo að ein af áskorunum í dag er að maður vill að nememdur læri að koma fyrir sig orði. Bæði munnlega og í ritun, að þau fari ekki bara inn á Google translate og slái inn setningar þar á íslensku eða ensku.“ segir Snædís.

Erfitt að kenna stærðfræði í fjarkennslu

Andri Ólafsson upplýsingafulltrúi Háskóla Íslands segir að þar noti kennarar yfirlestrarforrit til að fara yfir úrlausnir og sannreyna að nemendur séu höfundar úrlausna sinna. Einhverjar grunsemdir séu um svindl í prófum á vorönn en ekki meira en venjulega. Þá segir hann að ekki sé meira um brottfall úr áföngum miðað við fyrri ár. Það sé að minnsta kosti ekki komið í ljós. Hann segir að ef að upp komi mál þar sem nemendur eru grunaðir um svindl á lokaprófum fari það eftir eðli brots en algengast sé, ef um fyrsta brot sé að ræða, að nemandi fái fall í námskeiði, missi próftökurétt í viðkomandi námskeiði, og sé áminntur af forseta fræðasviðs. Nemendur hafi ætíð andmælarétt vakni grunur um misferli í prófum. 

Kristinn Þorsteinsson, skólameistari Fjölbrautarskólans í Garðabæ segir að það sé misjafnt á milli kennara hversu vel fyrirkomulagið gekk fyrir sig. Stærðfræðikennarar séu til að mynda ekki hrifnir af því að kenna stærðfræði í fjarkennslu. Ef upp komist um svindl á prófum fái nemendur núll á prófinu. Hins vegar sé erfitt að sanna að nemendur séu að svinda og því sé alltaf eitthvað um að nemendur stundi slíkt.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi