Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ekkert sætt eða fyndið við útgöngubann í Edinborg

Mynd: Jónína Guðbjörg / Aðsend

Ekkert sætt eða fyndið við útgöngubann í Edinborg

27.05.2020 - 15:53

Höfundar

„Við erum ekki með neitt krúttlegt samkomubann þar sem Alma kemur í sjónvarpinu og útskýrir af hverju það er bannað að fara í sund í smá stund,“ segir Bylgja Babýlons uppistandari sem er búin að missa húmorinn fyrir því að vera innilokuð og verkefnalaus í Edinborg.

Bylgja hefur undanfarin ár verið búsett í Skotlandi og segir hún segir ástandið þar vera gjörólíkt því sem Íslendingar hafi reynt síðustu vikur og kveinkað sér yfir. Reglurnar hafa verið rýmkaðar hér á landi eins og alþjóð veit og fólk er farið að geta hópast saman á ný, farið í sund, til vinnu og á öldurhús svo eitthvað sé nefnt. Bylgja má hinsvegar enn ekki fara út úr húsi, nema rétt til að fara út í búð eða út að skokka, og ekki hitta nokkurn mann nema þá sem hún býr með. „Það er frekar þrotað bara, ef ég á að segja eins og er,“ segir hún um stöðuna.

Boris Johnson „frekar farinn“

Og Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands er ekki hátt skrifaður hjá Bylgju sem segir að fáir Bretar taki mark á honum lengur þegar hann birtist á skjám landsmanna. „Við erum með svona klikkaðan kall sem kemur í sjónvarpið, ber í borðið og segir eitthvað rugl. Það er öllum eiginlega drullusama hvað hann segir því hann er frekar farinn greyið,“ segir hún. 

Skellur fyrir grínista að ekkert verði af Fringe Festival

Edinborg þykir almennt góður staður fyrir uppistandara enda fræg fyrir gróskumikla og lifandi senu. Þar er hin fræga Fringe-hátíð haldin þar sem þúsundir grínista koma fram ár hvert. En líkt og flestar samkomur sem til stóð að halda í sumar hefur hátíðinni verið aflýst sem kemur sér illa fyrir grínista. „Það er það sem allir uppistandarar verja árinu í að búa sig undir. Þannig að nú sitja allir uppi með svna klukkutíma af einhverjum bröndurum sem verða orðnir úreltir á næsta ári,“ segir hún. Það sé líka erfitt að finna upp á nýju efni í núverandi ástandi þegar það má engan hitta og ekki umgangast fólk. 

Ekki einu sinni þegar kötturinn skeit yfir græðlingana

Einangrunin veldur því að það er fátt sem ekkert sem fær Bylgju til að hlæja. „Ég hef komist að því að það er ekkert fyndið við garðyrkju. Það er það eina sem ég hef verið að gera,“ segir hún alvarleg. „Í dag til dæmis skeit kötturinn minn yfir eitt blómabeðið þar sem ég var að setja niður litla græðlinga. Fékk eiginlega niðurgang yfir þá alla. Það var ekkert fyndið.“

Laufey Haraldsdóttir ræddi við Bylgju Babýlons og fleiri grínista um grín á tímum samkomubanns í Lestinni á Rás 1.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Ari fer með gamanmál í beinu streymi ásamt Eddie Izzard

Bókmenntir

Erótískar sögur af Kókómjólkur-Klóa og Bill Gates