Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Breytingar sem þrengja að réttindum hælisleitenda

27.05.2020 - 13:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rauði krossinn gerir alvarlegar athugasemdir við frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á útlendingalögum og lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Frumvarpið, sem var fyrst lagt fram á 149. löggjafarþingi, var lagt fram á ný á þessu þingi eftir að hafa tekið nokkrum breytingum.

Meðal þess sem Rauði krossinn gerir athugasemdir við og nefnir í umsögn, sem send var allsherjar- og menntamálanefnd, er ákvæði um sjálfkrafa kæru og styttingu á fresti til að leggja fram greinargerð vegna kæru. Er það mat Rauða krossins að breytingin feli m.a. í sér að þeir umsækjendur sem falla undir Dyflinarreglugerðina muni í kjölfar breytinganna ekki lengur eiga þess kost á að nýta sér 15 daga kærufrest líkt og margir þeirra hafa gert.

Einnig eru gerðar athugasemdir við 5. og 6. ákvæði frumvarpsins, sem eru sögð þrengja að réttindum þeirra umsækjenda sem koma frá svonefndum öruggum upprunaríkjum og gera ríkari sönnunarkröfu til þeirra. 

Alvarlegar athugasemdir eru sömuleiðis gerðar við 11. grein frumvarpsins sem sögð er skerða verulega möguleika þeirra sem þegar hafa hlotið alþjóðlega vernd í öðru ríki til að fá mál sitt tekið til efnismeðferðar hér á landi. Greinin þrengi þá ekki síður að möguleikum ríkisfangslausra einstaklinga að fá vernd hér á landi á grundvelli ríkisfangsleysis.

Rauði krossinn telur ýmis ákvæði í frumvarpinu þó einnig vera til bóta og nefnir þar meðal annars breytingar á atvinnuréttindum þeirra sem fá dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, eða á grundvelli sérstakra tengsla við landið.