Boeing hefur framleiðslu á 737 max að nýju

27.05.2020 - 21:56
epa07728396 Southwest Airlines Boeing 737 Max aircraft sit parked on the tarmac of Southern California Logistics Airport in Victorville, California, USA, 19 July 2019. According to media reports, Southwest Airlines has announced that it would be taking Boeing 737 Max out of schedules until November. The Boeing 737 Max was grounded by aviation regulators and airlines around the world in March 2019 after 346 people were killed in two crashes.  EPA-EFE/ETIENNE LAURENT
 Mynd: epa
Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing hefur hafið framleiðslu á 737-max vélunum að nýju. Allar vélar af þeirri gerð voru innkallaðar eftir tvö flugslys með skömmu millibili um þarsíðustu áramót þar sem nærri 350 létu lífið.

Kórónuveirufaraldurinn seinkaði því nokkuð að framleiðsla gæti hafist að nýju, en tugir starfsmanna fyrirtækisins í verksmiðju í Seattle í Bandaríkjunum veiktust. Í tilkynningu frá Boeing í kvöld segir að framleiðsluferlið verði hægt til að byrja með, en Boeing á enn eftir að afla leyfa til að vélarnar fái að fara í loftið á ný.

Haft var eftir Greg Smith, fjármálastjóra Boeing, í lok mars að ferlið verði mjög hægt til að byrja með. Það verði í forgangi hjá fyrirtækinu að færa viðskiptavinum flugflota sinn aftur, og framleiðsla verði í takt við pantanir sem voru gerðar áður en 737-max vélarnar voru kyrrsettar í fyrra. Icelandair var meðal þeirra flugfélaga sem pöntuðu og höfðu tekið í notkun max-vélar Boeing, en félagið gerir ráð fyrir að nýta þær áfram þegar flugbanninu verður aflétt. Viðræður Icelandair við Boeing um bætur vegna kyrrsettra flugvéla ganga ágætlega, sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, fyrir helgi. 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi