Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Akureyrarbær fyrsta barnvæna sveitarfélagið á Íslandi

27.05.2020 - 18:08
Mynd með færslu
 Mynd: UNICEF/Steindór
Akureyrarbær varð í dag fyrst sveitarfélaga á Íslandi til að hljóta viðurkenningu Barnvænna sveitarfélaga. Akureyri er því komið í hóp valinna sveitarfélaga um allan heim sem leggja Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna til grundvallar öllu sínu starfi.

Akureyrarbær gerði samning við UNICEF árið 2016 um innleiðingu barnasáttmálans í stjórnsýslu og starfsemi bæjarins, með hagsmuni barna og ungmenna í sveitarfélaginu að leiðarljósi.

Viðurkenning til þriggja ára

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, afhentu Ásthildi Sturludóttur, bæjarstjóra á Akureyri, viðurkenninguna við hátíðlega athöfn á Akureyri í dag. Viðurkenningin er til þriggja ára og að þeim loknum gefst Akureyri kostur á endurnýjun hennar.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson

Ýmis verkefni unnin í samstarfi við ungmennaráð 

Ýmislegt hefur verið gert á Akureyri til að gera bæinn barnvænni frá því þátttaka í verkefni UNICEF hófst og ný verkefni hafa litið dagsins ljós í samstarfi við ungmennaráð sveitarfélagsins. Þessi verkefni meðal annars:

  • Árlegt þing á vegum bæjarins til að efla gagnvirkt samtal við börn og ungmenni.
  • Snjómokstur og samgöngur strætisvagna endurskoðaðar í samráði við börn og ungmenni.
  • Sérstakt verklag við hagsmunamat út frá réttindum barna við ákvarðanir og stefnumótun sem hefur áhrif á börn.
  • Rafræn handbók um tilkynningar til barnaverndar og samræmt verklag fyrir starfsmenn bæjarins.
  • Tilkynningahnappur svo börn geti sjálf tilkynnt um aðstæður sínar eða annarra til barnaverndarnefnda.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson

„Viljum huga einstaklega vel að velferð barna“

„Þetta þýðir kannski fyrst og fremst það að við viljum huga einstaklega vel að velferð barna,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri. „Og við höfum reynt að vanda okkur alveg sérstaklega þegar kemur að málefnum barna hér í öllu samfélaginu. Þannig að það skiptir okkur gríðarlega miklu máli að fá þennan stimpil frá UNICEF og við erum mjög stolt af því.“

Þurfa að halda áfram og viðhalda þessarri vinnu

En hún segir verkefninu hvergi nærri lokið. „Öllum réttindum fylgja skyldur og þetta er að sjálfsögðu mjög vandasamt og vinnunni er ekki lokið þó svo að við séum að fá viðurkenninguna hér í dag. Við þurfum stöðugt að halda áfram með þess vinnu og viðhalda henni.“