Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vonar að ferðaþjónustan nái viðsnúningi í haust

26.05.2020 - 22:05
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Ferðamálastjóri fagnar áformum þýskra stjórnvalda um að opna fyrir ferðalög til Íslands í næsta mánuði. Hann segir vísbendingar um að haustið verði betra en upphaflega var gert ráð fyrir.

 

Ísland er meðal áfangastaða í frumvarpi þýskra stjórnvalda sem miðar að því að slaka á ferðatakmörkunum þar í landi. Í frumvarpinu er kveðið á um að leyfa ferðalög frá og með 15. júní til og frá ríkjum Evrópusambandsins, Bretlandi og þeim Evrópuríkjum utan ESB sem eru í Schengen samstarfinu, - Íslandi Liechtenstein, Noregi og Sviss.

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri segir þetta skipta miklu máli fyrir ferðaþjónustufyrirtæki hér á landi.

„Það eru sannarlega góð tíðindi ef við getum gert ráð fyrir því að Þjóðverjar fari að vera hér í sumar. Þýskaland er einn af okkar elstu og tryggustu mörkuðum,“ segir Skarphéðinn Berg.

Hann bindur vonir við að ferðaþjónustan nái viðsnúningi strax í haust.

„Það eru einhverjar vísbendingar um það að haustið gæti orðið gott þannig að sannarlega geri ég ráð fyrir því að á næsta ári fari ferðaþjónustan að líta út eins og hún leit út áður en Covid-19 kom,“ segir Skarphéðinn Berg. 
 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV