Takmarkaður áhugi fyrirtækja á brúarlánum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fyrirtæki hafa takmarkaðan áhuga á brúarlánum, sem er eitt af efnahagslegum úrræðum sem ríkisstjórnin kynnti í lok mars. Arion banki hefur opnað fyrir umsóknir en Íslandsbanki og Landsbankinn eru enn að vinna að útfærslu lánanna, níu vikum eftir að þau voru kynnt.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti úrræðið 21. mars, lögin voru samþykkt 30. mars og gengið var frá samkomulagi ríkisins við Seðlabankann 17. apríl. Í því kemur að ríkisábyrgð á brúarlánum viðskiptabankanna til fyrirtækja verði að hámarki 50 milljarðar króna og mega vera allt að 70% af höfuðstól.

Ætluð fyrirtækjum í lausafjárþörf

Lánin eru ætluð fyrirtækjum í lausafjárþörf sem verða fyrir verulegu og ófyrirséðu tekjutapi, að lágmarki 40% á árinu. Skilyrði er að banki meti fyrirtæki rekstrarhæft þegar dregur úr áhrifum kórónuveirufaraldursins. Seðlabankinn samdi við bankana í byrjun maí um veitingu lánanna.

Heildarábyrgð ríkisins gagnvart lána Landsbankans eru 20 milljarðar, gagnvart Íslandsbanka 16 milljarðar, Arion banka 10 milljarðar og Kviku banka 630 milljónir.

Arion opnar fyrir umsóknir

Arion banki hefur nú opnað fyrir umsóknir og samkvæmt upplýsingum þaðan geta fyrirtæki nú hafið viðræður við bankann. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka er vinnan við útfærslu brúarlánanna enn í gangi og ekki liggur fyrir hvenær hægt verður að bjóða upp á þau. Landsbankinn er ekki heldur byrjaður að veita lánin en samkvæmt upplýsingum frá bankanum á eftir að koma í ljós hver eftirspurnin verður. 

Skilyrðin óskýr og  lánin lítið kynnt

Sigurður Hannesson, formaður Samtaka iðnaðarins, sagðist ekki skynja mikinn áhuga á úrræðinu meðal sinna félagsmanna. Hann hafði ekki sérstaka skýringu á því, hugsanlega væri þörfin ekki mikil, úrræðið væri enn lítið kynnt og skilyrðin óskýr.

Jóhannes Þór Skúlason, formaður Samtaka fyrirtækja í ferðaþjónustu, var sama sinnis, áhuginn væri lítill meðal fyrirtækja í ferðaþjónustu. 

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir bagalegt að liðnar séu níu vikur frá því úrræðið var kynnt og ekki sé enn ljóst hvenær fyrirtæki geti nýtt sér það né hver útfærslan verði. Tilgangurinn með brúarlánum hafi verið að fleyta fyrirtækjum yfir erfiðasta hjallann í lausafjárvanda sem skapist vegna faraldursins og því sé tíminn þar mikilvæg breyta.

 

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi