Sýknaður af ákæru um meiriháttar skattalagabrot

26.05.2020 - 11:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson
Héraðsdómur Reykjaness hefur sýknað Sindra Sindrason af ákæru um meiriháttar brot á skattalögum og peningaþvætti. Skattrannsóknastjóri tók Sindra til rannsóknar árið 2016 og komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði vantalið tekjur sínar í skattframtölum fyrir árin 2011-2014 um tæpar 107 milljónir króna. 

Sindri er viðskiptafræðingur  og starfaði á árunum 2010-2014 fyrir félagasamstæðuna Larsen Danish Seafood. Honum var tilkynnt um rannsóknina með bréfi í febrúar 2016 og komst skattrannsóknarstjóri svo að þeirri niðurstöðu að skattleggja bæri tekjur sem hann hefði fengið sem stjórnarlaun frá samstæðunni samkvæmt lögum um tekjuskatt. 

Þessu hafnaði Sindri og sagðist ekki hafa fengi sérstaklega greitt fyrir stjórnarsetu og ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sýna fram á slíkt. Félögin sjálf hafi ekki litið á greiðslurnar sem stjórnarlaun og það hafi skiptastjóri félaganna ekki heldur gert. Það sé því hreinn tilbúningur ákæruvaldsins að um stjórnarlaun hafi verið að ræða.  

Óumdeilt er að að Sindri fékk féð greitt og segir í úrskurði dómsins að engin leynd hafi hvílt yfir greiðslunum. Skýringar hans séu heldur ekki haldlausar þó þær gangi ekki fyllilega upp. Ákæruvaldinu hafi heldur ekki tekist að sanna að hann hafi gerst sekur um brotin og því teljist hann sýkn saka. 

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi