Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sjómenn úr símasambandi á grunnslóð: GSM loforð svikin

26.05.2020 - 11:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Rúnar Snær Reynisson - Stefán Guðjónsson
Sjómaður í Mjóafirði segir að loforð um að GSM símkerfi myndi koma að fullu í stað gamla NMT kerfisins hafa verið svikið. Strandveiðimenn séu víða án símasambands á grunnslóð og því sé erfiðara að selja afla samdægurs og fá hámarksverð. Landhelgisgæslan þarf á stundum að bera boð á milli sjómanna og fiskmarkaða.

Við ætlum í siglingu með ferjunni sem gengur frá Mjóafirði yfir til Norðfjarðar tvisvar í viku. Báturinn flytur fólk, vörur og póst til og frá Mjóafirði átta mánuði á ári. Siglingin tekur klukkustund og þar af er báturinn úr símasambandi í 20 mínútur. Trillur frá Norðfirði sem veiða á grunnslóð eru heldur ekki í símasambandi en þurfa að selja aflann. Sjómenn nota þá nota talstöðina og biðja báta í símasambandi að koma boðum á fiskmarkað. Sævar Egilsson, skipstjóri á flóabátnum Björgvin svarar kallinu.

„200 kíló blandaður góður, 200 kíló blandaður og 50 kíló undirmál var það ekki rétt,“ spyr hann Kristinn Hjartarson, á Laxinum í gegnum talstöð. Kristinn tjáir sig um símasambandið. „Það er ekkert símasamband á grunnslóð. Þeir verða að bæta það eitthvað verulega. Við erum í eilífum vandræðum.“ Einar Hávarðarson á Peyjanum heyrir samskiptin, biður Sævar um að melda fyrir sig líka og segir: „Símasambandið er hreint úr sagt til háborinnar skammar frá Gerpi að Glettingi. Það er ekkert hægt að tala um það einu sinni. Maður skilur ekkert í því að það skuli ekki vera hægt að gera eitthvað í þessu,“ segir Einar.  Stefán Guðjónsson, á Guðjóni SU 61 leggur líka orð í belg: „Þetta er vonlaust, það vantar alveg í Dalatangann sendi.“

Geta þurft að sigla úr góðu fiskeríi til að ná að selja aflann samdægurs

Sævar segir að öllum þyki sjálfsagt að geta hringt heim hvar og hvenær sem er en salan á fiskinum sé alvarlegra mál.  Sjómönnum liggur á að sigla með aflanna að landi og þurfa helst að tilkynna hann inn á fiskmarkaðinn fyrir hádegi í gegnum síma. Ef það tekst er hægt að selja hann samdægurs og fá miklu betra verð. Síðar um daginn þyrfti að selja hann dagsgamlan og verðfelldan. „Í verstu tilfellum hafa menn þurft að sigla úr veiði og í símasamband til þess að geta selt aflann,“ segir Sævar.

GSM- kerfið ekki enn náð útbreiðslu gamla NMT á svæðinu

Oftast tekst að koma boðum á aðra báta og þá hefur vaktstöð siglinga jafnvel hjálpað til að koma aflatölum á fiskmarkaðinn. Sævar telur að með bættu símasambandi á  Dalatanga og sendi þar mætti koma sambandi á stórt svæði milli Glettings og Gerpis. Þar hefur verið sambandslaust á grunnslóð síðan langdræga NMT kerfinu var lokað fyrir tíu árum. „Við vorum með NMT sambandið sem var mjög gott og þá voru til dæmis sendar á Dalatanga og á fleiri stöðum. Svo þegar var slökkt á því kerfi þá var okkur lofað því og búið að teikna kortið og allt að þetta kæmi á næsta ári fullkomið og betra gemsasamband heldur en NMT sambandið var. 2020 er það ekki komið enn,“ segir Sævar Egilsson skipstjóri.

Horfa á fréttatíma

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV