Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Samþykkja 103 milljarða hækkun fjárheimilda

26.05.2020 - 16:24
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Gert er ráð fyrir 34 milljörðum til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli og 27 milljörðum til greiðslu launakostnaðar á uppsagnarfesti í nýju fjáraukalagafrumvarpi sem ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun.

Um er að ræða þriðja fjáraukalagafrumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, á þessu ári til að bregðast við þeim aðstæðum sem skapast hafa vegna COVID-19. Er frumvarpið, að því er segir í frétt á vef Stjórnarráðsins, eitt það umfangsmesta til þessa.

Samanlagt nemur hækkun fjárheimilda í áður samþykktum fjáraukalögum fyrir árið 2020, auk þeirra tillagna sem lagðar eru til nú, 103,3 milljörðum króna. Nemur aukningin sem stjórnin samþykkti í dag samtals 65 milljörðum, en í frumvarpinu er kveðið á um auknar fjárheimildir vegna vinnumarkaðsaðgerða sem þegar hefur verið hrint í framkvæmt.

Þannig er gert ráð fyrir 34 milljörðum til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli og eiga þær aðgerðir að gilda til ágústloka. 27 milljarðar eru síðan ætlaðir í  greiðslu launakostnaðar á uppsagnarfesti vegna uppsagna sem verða frá maíbyrjun til 1. október á þessu ári. 

Þá eru tveir milljarðar eyrnamerktir launagreiðslum einstaklinga sem sæta sóttkví og rúmir tveir milljarðar eiga að fara í endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar hér á landi. Er fjárveitingu ætlað að skapast svigrúm til að taka inn ný verkefni og nýta þannig þau tækifæri sem kunna að myndast í kjölfar aukins áhuga á Íslandi sem tökustaðmyndast í kjölfar góðs árangurs Íslands í baráttunni gegn kórónaveirunni.

Anna Sigríður Einarsdóttir