Rutte gat ekki fylgt móður sinni til hinstu hvílu

26.05.2020 - 02:11
epa08433869 Dutch Prime Minister Mark Rutte during the press conference after the end of the weekly Council of Ministers in The Hague, the Netherlands, 20 May 2020.  EPA-EFE/BART MAAT
 Mynd: EPA
Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, gat ekki heimsótt móður sína á dánarbeðinum vegna heimsóknarhafta í tengslum við kórónuveirufaraldurinn. Ráðuneyti Ruttes greindi frá þessu í dag. Hann greindi frá því fyrr í dag að móðir hans, hin 96 ára gamla Mieke Rutte-Dilling, hafi látið lífið á dvalarheimili í Haag 13. maí. Þá voru um tveir mánuðir síðan öllum dvalarheimilum var lokað fyrir utanaðkomandi heimsóknum í Hollandi.

Talsmaður Ruttes segir hann hafa fylgt öllum fyrirmælum stjórnvalda. 
Móðir Ruttes lét ekki lífið af völdum COVID-19, en faraldurinn geisaði þó á dvalarheimili hennar. Hann sagði fjölskylduna hafa komið saman til þess að minnast hennar, en þau vonist til þess að geta vitjað grafar hennar í nánustu framtíð og kvatt hana. Hann sagði fjölskylduna þakkláta fyrir að hafa fengið svo langan tíma með henni. Rutte-Dilling var borin til grafar á föstudag.

Sett í samhengi við bresk stjórnvöld

Andlát móður Ruttes og það að hann hafi ekki heimsótt hana síðustu vikur hennar á lífi vekur ef til vill enn meiri athygli vegna framkomu helsta ráðgjafa forsætisráðherra Bretlands. Hart er sótt að Dominic Cummings, ráðgjafa Boris Johnson, fyrir að fara gegn reglum sem stjórn Johnsons setti um bann við ferðalögum. Cummings ferðaðist um langa leið til þess að dvelja hjá foreldrum sínum þegar tilmæli voru um útgöngubann í Bretlandi, og fór fjölda annarra ferða sem greint hefur verið frá í breskum fjölmiðlum. Hann segist sjálfur ekki hafa gert neitt rangt.

Um 45 þúsund hafa greinst smitaðir með kóronuveiruna sem veldur COVID-19 í Hollandi og nærri sex þúsund eru látnir. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi