Reka flugfreyjur og ráða aftur á hálfum launum

26.05.2020 - 17:15
epa08174655 (FILE) - British Airways (BA) aircrafts are seen at Heathrow Airport in London, Britain, 16 January 2020 (reissued 29 January 2020). Media reports on  29 January 2020 state British Airways has suspended all flights to and from mainland China with immediate effect amid the ongoing coronavirus crisis.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Breska flugfélagið British Airways hyggst segja upp öllum flugfreyjum og flugþjónum félagsins og ráða svo meirihluta þeirra aftur á lægri launum. Alls verður 43.000 sagt upp um miðjan næsta mánuð og 31.000 svo boðin vinna á ný samkvæmt öðrum kjarasamningi.

Greint er frá þessu í fagtímaritinu View from the Wing, en BA tilkynnti fyrir rúmri viku að breytingar yrðu gerðar á  áhöfnum flugfélagsins. 

Forsaga málsins er sú að flugfreyjur sem starfa fyrir BA falla í þrjá ólíka hópa. Þær sem fljúga langar vegalengdir, þær sem eru í styttra flugi og svo þriðji hópurinn sem vinnur á bæði lengri og styttri flugleiðum. Hóparnir þrír eru aldrei að störfum í sömu flugvél.

Eftir uppsagnirnar hyggst BA ráða allar flugfreyjurnar á sama kjarasamningi, þeim sem gerir ráð fyrir að unni sé á báðum fluglengdum. Flugfreyjur með langan starfsaldur sem til þessa hafa eingöngu unnið á lengri flugleiðum frá Heathrow flugvelli munu með breytingunum sjá laun sín lækka um 50-75%.

Ein þeirra greindi frá málinu í færslu á Facebook: „Þann 15. júní verður mér sagt upp úr starfi sem ég elska og hef sinnt í 34 ár. Uppsagnarbréf verða send 43.000 kollega minna,“ sagði hún í færslu sinni. „31.000 „heppnum“ fyrrverandi starfsmönnum verður svo boðin endurráðning á verri samningi sem fyrirtækið hefur viljað koma á frá því árið 2010. Fyrir mig þýðir þetta 60% launalækkun.“ 

Segir View from the Wing að þó það sé ekki sammála flugfreyjunni um að BA sé að greiða stjórnendum sínum of há laun, enda hafi fyrirtækið lengi vel verið að skila hagnaði, séu aðgerðirnar nú engu að síður harkalegar.

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi