Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Ráðgjafinn og forsætisráðherrann hans

26.05.2020 - 18:53
epa08272461 British Prime Minister Boris Johnson attends a panel event and reception to mark International Women's Day in 10 Downing Street, Central London, Britain, 05 March 2020.  EPA-EFE/WILL OLIVER / POOL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ferðabann hefur víða verið liður í viðureigninni við COVID-19 veiruna. Í Bretlandi er rætt hvort bannið hafi í raun náð til allra eða aðeins sumra og það snertir einnig traust á stjórnmálamönnum.

Um traust í stjórnmálum

Traust er stór liður í stjórnmálum en kannski ekki alltaf traustvekjandi að sjá hvernig kaupin gerast á pólitísku eyrinni. Margaret Levi prófessor í stjórnmálum við Stanford-háskólann hefur iðulega fjallað um hvað felist í hugtakinu og hvaða máli það skipti.

,,Hverjum treystum við, til hvers? Hvað er átt við með trausti? Á það við hæfni, að standa skil á loforðum, koma þeim í framkvæmd, eru loforðin sanngjörn?“ spyr Levi.

Stjórnmálamenn vilja uppfylla loforð til að halda í traust

Stjórnmálamenn halda því gjarnan á lofti að þeir verði að efna loforð sín til að glata ekki trausti kjósenda. Sem óbreyttur þingmaður sagði Boris Johnson í janúar í fyrra að frestun á framkvæmd útgöngu Breta úr Evrópusambandinu myndi grafa undan trausti á stjórnmálum.

Veiran reynir á traustið

Nú þegar ríkisstjórnir víða um heim hafa þurft að leggja á fólk ferða- og samkomubann í glímunni við COVID-19 veiruna hefur sannarlega reynt á traust svo fólk taki þessar ógnar kvaðir á sig. Hvort sem það var af því athyglin var öll á Brexit eða öðru þá var breska stjórnin sein að taka veiruna föstum tökum.

Einföld skilaboð frá forsætisráðherra

Ferða- og samkomubann var sett hér 23. mars. Nokkrum dögum síðar var forsætisráðherra orðinn veikur af veirunni. Um það leyti sendi hann öllum landsmönnum bréf til að hnykkja á, að eigin sögn, einum mjög einföldum skilaboðum: verið heima.

En ráðgjafinn tók annan pól í hæðina

Um það leyti sem bréfið með þessum einföldu skilaboðum var borið út, brá nánasti ráðgjafi forsætisráðherra, Dominic Cummings, á annað ráð; keyrði með konu og fjögurra ára syni um 450 kílómetra norður í land til að dvelja í húsi á landareign foreldra sinna, ef þau hjónin yrðu nú lasin. Fjölmiðlar komust á snoðir um þetta, reyndu í fimm vikur að fá skýringar á þessu ferðalagi. Á föstudaginn varð ferðin forsíðuefni tveggja breskra blaða.

Forsætisráðherra reynir að skýra málið

Tveir ráðgjafar hafa þegar hætt eftir að brjóta ferðareglur og því líklegt að svo skýrt brot leiddi til afsagnar ráðgjafans eða hann yrði rekinn. Á sunnudaginn voru raddirnar svo háværar að forsætisráðherra sá sig tilneyddan til að leiða sjálfur daglegan COVID-kynningarfund.

Eftir að bjóða góðan daginn, sagðist forsætisráðherra vilja vinda sér strax að málinu sem hefði átt athyglina undanfarna 48 tíma: er þessi stjórn að fara fram á að þið, fólkið, gerið eitt meðan háttsett fólk í stjórninni gerir eitthvað annað? Þetta tæki hann alvarlega og eftir að hafa rætt við Cummings væri svarið að þannig væri þetta ekki. Rakti síðan skýringar ráðgjafans.

Málið sem hittir beint í þjóðarsálina

Breskir fjölmiðlar sinna stjórnmálum af krafti. Sum mál geta verið mjög æsileg fyrir innvígða en ná alls ekki athygli almennings. Málið um ferðalag Cummings hefur hins vegar hitt beint í þjóðarsálina. Öll þjóðin á sér sínar sögur um lífið í ferða- og samkomubanni og þær eru um harðræði, ekki um lystiferðir til afa og ömmu.

Ráðgjafinn reynir sjálfur að útskýra málið

Þegar ljóst var í gær að ræða forsætisráðherra hafði ekki sefað þjóðarsálina hélt Dominic Cummings sjálfur blaðamannafund í rósagarðinum í Downing stræti. Hluti af sögunni var að áður en Cummingshjónin sneru aftur heim hefðu þau haft áhyggjur af sjón hans og því ákveðið að fara í bíltúr á fallegan stað, hann keyrði, til að athuga að sjónin væri í lagi. Jú, þetta óvenjulega sjónpróf staðfesti að hann gat alveg keyrt, keyrði því til baka til London daginn eftir.

Af hverju leggur Boris allt í sölurnar fyrir ráðgjafann?

Nú hefur forsætisráðherra misst um tuttugu prósentustiga fylgi, þrjátíu stjórnarþingmanna krefjast afsagnar Cummings og einn undirráðherra sagt af sér, meðal annars því svona brot grafi undan vilja fólks til að fylgja reglum. Samt heldur forsætisráðherra í ráðgjafann, sagði fréttakona BBC og spurði einn ráðherra í hádegisfréttunum í dag: Hvað er svona sérstakt við þennan ráðgjafa? Getur ríkisstjórnin ekki starfað án hans? – Það varð fátt um svör en það vantar ekki brandara eins og þá spurningu hvort Cummings reki kannski forsætisráðherra.

Botar blaðamannafundinn til að bæta við ósannri fullyrðingu

Eitt í viðbót kom svo í ljós eftir blaðamannafund Cummings. Á fundinum sagðist hann, óaðspurður, hafa verið meðvitaður um hættur kórónuveirunnar löngu áður en faraldurinn skall á og vísaði í bloggfærslu. Mikið rétt, í bloggi frá í fyrra nefndi Cummings hættuna sem heiminum gæti stafað af kórónuveirum.

En við nánari athugun sést að þetta um kórónuveiruna er viðbót frá nú í apríl. Svo nei, sýnir ekki að Cummings hafi hugleitt kórónuveirur í fyrra. Þá er spurningin að fyrst Cummings skjöplaðist á sannleikanum um veiruforsjá sína hvað þá með ferðasöguna?

Stendur forsætisráðherra með ráðgjafanum eða þjóðinni?

Margir þingmenn Íhaldsflokksins fá nú póstflaum frá kjósendum um ómælt harðræði til að fara eftir reglunum sem Cummings komist nú upp með að hundsa. En kjarni málsins er ekki ráðgjafinn heldur forsætisráðherrann sem lifir á trausti eins og aðrir stjórnmálamenn. Ef sú tilfinning verður ofan á að forsætisráðherra standi með ráðgjafa sínum gegn þjóðinni gæti það grafið ærlega undan trausti á forsætisráðherra og stjórn hans.

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir