Næturgestir enn til vandræða í sjóböðunum á Hauganesi

26.05.2020 - 17:02
default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Eigandi sjóbaða við Sandvíkurfjöru á Hauganesi þarf að búa svo um hnútana að ekki verði hægt að baða sig þar í heitum pottum á nóttunni. Þá hefur hann kært til lögreglu þjófnað úr peningakassa við pottana. RÚV fjallaði um slæma umgengni þarna í fyrrasumar.

„Mér þykir leitt að þurfa að tilkynna að vegna stanslausra næturheimsókna í pottana á Hauganesi með ekki góðri umgengni og ónæði fyrir íbúana neyðist ég til að kæla þá niður kl 22:00 á hverju kvöldi og hita þá svo upp aftur kl 9:00 á morgnana,“ skrifar Elvar Reykjalín á Facebooksíðu sína í dag.

Sjá einnig: „Þetta eina prósent sem skemmir fyrir hinum“

Elvar hefur síðustu ár byggt upp baðstað í Sandvíkurfjöru með heitum pottum og aðgengi að fjörunni þar sem er góð aðstaða til sjóbaða. Engin gæsla er við pottana heldur hefur Elvar treyst því að gestir gangi vel um og borgi 500 krónur fyrir baðferðina.

Peningakassinn ítrekað brotinn upp

Meðal annars má borga með því að setja pening í kassa við pottana, en kassinn hefur ítrekað verið brotinn upp. „...þjófur var staðinn að verki kl 2:00 í nótt við að brjóta upp peningakassann. Vonbrigði viðkomandi urðu mikil er hann leit þetta skítti sem var í kassanum enda borga aðeins um 40 % þennan litla 500 kall sem kostar í böðin,“ skrifar Elvar jafnframt á Facebook og segist hafa kært þjófnaðinn til lögreglu.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi