Leita úr flugi og ferðaþjónustu í kennslu

26.05.2020 - 09:52
Mynd með færslu
 Mynd: Icelandair
Nokkuð er um að flugfreyjur sem misstu vinnuna hjá Icelandair athugi nú með störf í grunnskólum landsins. Þetta staðfesta skólastjórnendur sem fréttastofa ræddi við. Kennarar sem höfðu snúið sér að öðrum störfum innan ferðaþjónustunnar leita nú einnig aftur í kennsluna. 

Átta hundruð níutíu og sjö flugfreyjur og flugþjónar misstu vinnuna í uppsögnum Icelandair um síðustu mánaðamót. Mikill fjöldi til viðbótar hefur einnig misst vinnuna hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu og útlit er fyrir að það taki ferðaþjónustuna nokkra mánuði og jafnvel ár að ná fyrri styrk. Nokkur fjöldi starfsmanna er kennaramenntaður og kannar hluti þeirra nú möguleikann á að hefja kennslu á ný. 

Þórunn Jónasdóttir, skólastjóri Hörðuvallaskóla í Kópavogi, segir eitthvað um að flugfreyjur með kennsluréttindi hafi samband. Það sama gildi einnig um kennara sem höfðu snúið sér að öðrum störfum í ferðaþjónustunni. 

Menntaðir kennarar hafa forgang í lausar kennarastöður og ber skólastjórnendum að auglýsa ár hvert þær stöður sem leiðbeinendur sinna. Auglýsa þarf hverja stöðu tvisvar áður en óska má leyfis hjá undanþágunefnd um að leiðbeinandi gegn starfinu næsta skólaár.  

Vel virðist ganga að manna kennarastöður á suðvesturhorninu þetta árið og er nokkuð um að skólar hefðu lokið við að ráða í lausar stöður áður en skólar lokuðust vegna kórónuveirunnar. 

Meirihluti þeirra skólastjórnenda sem fréttastofa ræddi við könnuðust líka við að hafa heyrt af áhuga flugfreyja og annars starfsfólks í ferðaþjónustu á að snúa aftur í kennslu.  

Rósa Ingvarsdóttir, skólastjóri Helgafellsskóla í Mosfellsbæ, segir þá starfsmenn ferðaþjónustunnar sem ekki eru með kennsluréttindi einnig sýna skólanum áhuga og sæki þá um stöður stuðningsfulltrúa og skólaliða. „Við verðum öll vör við þennan áhuga. Það liggur í hlutarins eðli að fólk leitar í nýjar stöður þegar breyting verður,” segir Rósa. 

 

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi