
Leit að Andris Kalvans hafin að nýju
Andris er talinn hafa villst í fjallgöngu á Snæfellsnesi. Um 250 björgunarsveitarmenn leituðu hans 30. desember og 150 manns héldu áfram leit þann 3. janúar. Skömmu síðar urðu aðstæður til leitar gríðarlega erfiðar og skipulagðri leit var hætt. Töluvert fór að snjóa í fjallið og snjóflóðahætta var á köflum. Engar nýjar vísbendingar hafa komið fram síðan bíll Andris fannst mannlaus við Heydalsveg í Hnappadal fyrir áramót.
Ægir Þór Þórsson, stjórnandi leitar, segir að á þriðjudag í síðustu viku hafi sveit ríkislögreglustjóra farið til leitar á ný, flogið dróna yfir Hrútaborgir og myndað allt leitarsvæðið. Þá hafi hópar af Snæfellsnesi, einn til tveir menn saman, og björgunarsveitin í Stykkishólmi einnig leitað. Hann segir að skilyrði til leitar séu enn nokkuð erfið því mikill snjór er á svæðinu. Verið sé að skipuleggja frekari leit á næstunni en þess er beðið að snjórinn bráðni. Framhaldið verði svo ákveðið í samráði við lögreglu.
„Við erum að taka þetta núna viku fyrir viku og höfum auga með fjallinu. Við erum að skoða hvernig þetta þróast með snjóinn og annað og hvenær hægt verður að fara í áframhaldandi leit,“ segir Ægir.