Kreppan bjargaði bókabúðum

Mynd: hallaharðar / hallaharðar

Kreppan bjargaði bókabúðum

26.05.2020 - 13:51

Höfundar

Þegar Eiríkur Ágúst Guðjónsson flutti til Reykjavíkur árið 1981 voru 14 fornbókaverslanir í miðbænum, nú starfar hann í þeirri einu sem eftir er, Bókinni við Hverfisgötu.

„Þetta voru aðrir tímar. Þetta er eina búðin sem er eftir og hún er elsta starfandi bókaverslunin í borginni og eitt af elstu starfandi fyrirtækjunum með samfellda sögu í Reykjavík. Í 101 eru bara örfáar sjoppur sem hafa lifað túrismann af,“ segir Eiríkur Ágúst Guðjónsson bóksali en þegar hann flutti  til Reykjavíkur árið 1981 voru 14 fornbókaverslanir í miðbænum.

„Bókabúðir áttu lengi mjög erfitt á tímabili en það má segja að kreppan 2008 hafi bjargað bókabúðum. Í þeim spretti sem fólk var á árunum 2006-2008 mátti enginn vera að því að líta í bók. Við vorum öll á leiðinni til útlanda og vorum alltaf að fá okkur kokteila hingað og þangað. En svo þegar allt stoppar þá þarftu að líta inn á við, byrja dáldið upp á nýtt og leita í grunninn. Þá fékk bókin, að mínu viti, aðeins sess aftur.“  

Eiríkur tekur undir það að framundan séu svipaðir tímar og eftir hrun. 

„Jú, við þurfum að leita aftur inn á við. Það hefur mikið verið talað um að þessi tími hafi verið mjög erfiður. Fjölskyldur hafi verið heima með börnunum sínum og að það hafi verið svo erfitt. Það þurfi sálfræðihjálp og mikið af brennivíni. Ég var heima með börnunum mínum núna í sex vikur og mér fannst það bara ekkert erfitt. Við bara spiluðum, lásum bækur og horfðum á bíómyndir.“ 

Rætt var við Eirík í Samfélaginu á Rás1 og hægt er að hlusta á samtalið í heild sinni  í spilaranum hér að ofan. 

 

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Nóg að gera í síðustu fornbókabúð Reykjavíkur

Menningarefni

Fornbókabúðin í Fljótum