Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Heitt vatn á höfuðborgarsvæðinu frá virkjunum í sumar

26.05.2020 - 13:50
Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay - Pexels
Heitt vatn í nokkrum hverfum borgarinnar og í Mosfellsbæ fá í sumar upphitað vatn frá virkjunum Orku náttúrunnar á Hellisheiði og á Nesjavöllum í stað vatns úr borholum á jarðhitasvæðium í Reykjavík og Mosfellsbæ. Með þessu á að létta á vinnslu úr jarðhitasvæðum í Reykjavík og Mosfellsbæ sem gerir mögulegt að safna meiri forða fyrir veturinn.

Fyrri hluti vatnsskiptanna verður framkvæmdur á morgun og virkjanavatni veitt á austari hluta Reykjavíkur og síðari hluti viku síðar. Að því loknu verður allt höfuðborgarsvæðið, nema Kjalarnes og Mosfellsdalur, komið á virkjanavatn, segir í tilkynningu.  

Helsti munurinn á virkjanavatni og jarðhitavatni er að jarðhitavatn kemur úr borholum og er veitt beint úr holunum og inn á dreifikerfið en virkjanavatnið er upphitað grunnvatn. Það ætti því að vera minni lykt af heita virkjanavatninu. Í tilkynningunni kemur fram að engar breytingar verði á hitastigi eða þrýstingi í hitaveitunni við skiptin.

Ráðgert er að þessi tilhögun standi fram í ágúst.  Í framtíðarskipulagi hitaveitu Veitna er gert ráð fyrir að  Árbærinn og Úlfarsárdalurinn verði settir á virkjanavatn til frambúðar. 
 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV