Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Heimildir til að vísa fólki burt þurfa að vera skýrar

26.05.2020 - 15:20
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
„Eftirfylgni gagnvart þeim sem ekki ætla sér að hlíta sóttvarnarráðstöfunum getur verið erfið í framkvæmd. Upp hafa komið dæmi þar sem lögregla hefur þurft að hafa slík afskipti af fólki,“ segir í skýrslu verkefnastjórnar um opnun landamæra. Skýrslan var birt eftir hádegi í dag. Meginniðurstöður hennar eru að gerlegt sé að hefja skimanir á Keflavíkurflugvelli í stað þess að krefjast tveggja vikna sóttkvíar. Ýmiss skilyrði þarf þó að uppfylla.

Verkefnastjórnin segir að þegar og ef umferð um flugvöllinn í Keflavík fer að aukast þarf að vera alveg skýrt hvaða heimildir lögreglan hefur til að bregðast við gagnvart þeim sem ljóst þykir að ætla ekki að hlíta sóttvarnaráðstöfunum eins og sóttkví. Til dæmis þarf að vera ljóst hvaða heimildir eru til að vísa fólki frá landinu.

Verkefnastjórnin segir það vera til skoðunar að flytja frávísunarheimild í útlendingalögum sem byggir á almannaheilbrigði frá Útlendingastofnun til lögreglunnar. Verkefnastjórnin segir að það þurfi að liggja ljóst fyrir hvort heimilt sé að vísa útlendingi frá landi við komu þrátt fyrir að ekki sé unnt að staðfesta smitsjúkdóm. Verkefnastjórnin segir að það sé ekki á verksviði sínu að fjalla um eða gera tillögur í þessum efnum en verkefnisstjórnin hefur upplýsingar um að dómsmálaráðuneytið hafi falið ríkislögreglustjóra að leiða vinnuhóp þar sem gerðar verða tillögur um breytingar á lögum og reglum, meðal annars um þessi álitaefni.

Verkefnastjórnin segir að það auðveldi verulega framkvæmd sýnatöku hjá öllum komufarþegum í Keflavík þegar eftirlit fer fram á innri landamærum Schengen og allar komur farþega til landsins fylgja sama flæði. Unnið sé að því á vegum ESB og Schengen ríkjanna að samræma afléttingu ferðatakmarkana á bæði á innri og ytri landamærum og mikilvægar leiðbeiningar gætu komið úr þeirri átt. Núgildandi ákvörðun um eftirlit á innri landamærunum gildir til og með 3. júní. Takmarkanir á komu yfir ytri landamæri eru til og með 15. júní. Farþegar frá þessum tveimur svæðum fari ólíka leið í gegnum flugstöðina í Keflavík og því þyrfti að liggja fyrir með sem mestum fyrirvara hvort unnt verði að halda áfram eftirliti á innri landamærum meðan á verkefnistímanum stendur.