Heilbrigðiskerfið í Brasilíu að hruni komið

26.05.2020 - 22:11
Mynd: EPA-EFE / EFE
Heilbrigðiskerfið í stærstu borgum Brasilíu er að hruni komið vegna COVID-19. Hjúkrunarfræðingar í Ríó segja að neyðarástand hafi verið í heilbrigðiskerfinu áður en kórónuveiran barst til Brasilíu. Næst flest smit á heimsvísu hafa nú greinst í Brasilíu, rúmlega 377 þúsund.

Í borginni Manaus á Amazon-svæðinu búa um tvær milljónir en hún hefur farið einna verst út úr faraldrinum, af stærstu borgum Brasilíu. Dánartíðni þar í apríl og maí var þrefalt hærri en í meðalári en ekki er vitað með vissu hvers vegna, því aðeins fimm prósent þeirra sem létust síðustu tvo mánuði voru skimuð fyrir Covid-19. 

Í Brasilíu hafa aðeins 735 þúsund verið skimuð fyrir veirunni, og nærri 380 þúsund greinst með smit. Það er mjög hátt hlutfall en til samanburðar hafa Rússar skimað rúmlega níu milljónir en þar hafa um 362 þúsund greinst með veiruna.

Það er því flest sem bendir til þess að smit í Brasilíu séu miklu fleiri en yfirvöld vita um, eða vilja vita um. Jair Bolsonoaro forseti hefur gert lítið úr faraldrinum, gagnsemi tveggja metra reglunnar og þess að halda sig heima, sem smitast út í samfélagið. 

Sjúkrahús í borginni Ríó og fleiri borgum eru yfirfull. Þar er tugum sjúklinga sinnt í sömu herbergjunum og dæmi um að lík séu ekki fjarlægð úr herbergjunum svo dögum skiptir. „Það getur vel gerst, og hefur gerst á flestum heilbrigðisstofnunum, að við þurfum að geyma líkin á sjúkrastofunum til þess að bjarga öðru fólki sem kemur inn í lífshættu,“ segir Libia Bellusci, varaformaður félags hjúkrunarfræðinga í Ríó. 

Álag á heilbrigðisstarfsfólk í Ríó var mikið fyrir en Libia segir að nú sé ekki hægt að sinna öllum. Þrjátíu og níu hjúkrunarfræðingar hafa dáið vegna veirunnar í Ríó en hlífðarfatnaður og grímur eru af skornum skammti. „Og það hefur áhrif á okkur. Þegar adrenalínið er á fullu reynir maður að gera allt sem hægt er að gera en daginn eftir fær maður efasemdir og hugsar: Guð, allir eru að deyja. Við vitum ekki hvað gera skal, það er ekkert hægt að gera.“

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi