Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hefur ekki tölu á kosningunum sem hún hefur unnið við

26.05.2020 - 15:13
Mynd: RÚV / RÚV
Við fylgjumst með frambjóðendum kosninga en sjáum minna af þeim sem vinna við þær. Í Samfélaginu á Rás 1 var rætt við Bergþóru Sigmundsdóttur, sem hefur unnið við svo margar kosningar um ævina að hún hefur ekki tölu á þeim. Hún er sviðstjóri hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og hefur yfirumsjón með utankjörfundaratkvæðagreiðslu embættisins sem hófust 25. maí og standa fram á kjördag. Að mörgu er að hyggja, reglur eru stífar og stundum skapast taugastrekkjandi aðstæður.

Bergþóra segir mikilvægt að reglurnar séu harðar, því ekkert megi út af bregða sem varpi skugga á kosningarnar. Mikið sé í húfi fyrir framboðin og því eðlilegt að þau hugi sérstaklega að framkvæmd kosninganna. Hún segir fjölda starfsfólks koma að framkvæmd kosning hverju sinni, og í ár sé áskorunin meiri en nokkru sinni fyrr vegna COVID-faraldursins. Hún hefur lent í nokkuð streituvaldandi aðstæðum þegar koma þarf utankjörfundaratkvæðum á milli landshluta og hefur oft mátt litlu muna. Bergþóra er orðin sjötug og líður því að starfslokum. Hún mun þó klára vinnuna við komandi forsetakosningar. Hún segir að vel geti verið að hún taki þátt í fleiri kosningum verði hún kölluð til. Kosningar séu skemmtileg verkefni, gaman sé að vinna með góðu fólki og hitta kjósendur - sérstaklega þá sem klæða sig upp fyrir tilefnið. Hlusta má á viðtalið við Bergþóru í spilaranum hér að ofan. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: BS
Bergþóra Sigmundsdóttir
thorhildurg's picture
Þórhildur Guðrún Ólafsdóttir
dagskrárritstjórn