Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Harðar aðgerðir skiluðu árangri í Vestmannaeyjum

26.05.2020 - 09:30
Mynd með færslu
 Mynd: Ólöf Ragnarsdóttir - RÚV
Aðgerðastjórn vegna Covid lauk störfum í Vestmannaeyjum í gær, en hún hefur fundað daglega í rúmlega 2 mánuði. Ekkert smit hefur greinst í Eyjum síðan 20. apríl.

Vestmannaeyjar eru eitt þeirra sveitarfélaga hér á landi þar sem hvað flest Covid-19 smit hafa greinst hlutfallslega, en alls hafa 105 greinst með veiruna í Eyjum.

„Við fengum þetta dálítið skart eins og flestir þekkja,“ segir Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum. „Fyrsta smitið kom 15. mars, viku seinna vorum við orðin 30, vikuna eftir það vorum við orðin 58 og vikuna eftir það vorum við orðin 102, þannig að þetta gerðist rosalega hratt hjá okkur.“

Hún segir að gripið hafi verið til harðra aðgerða, samkomubann miðaðist við 10 manns, íþróttahús, leikskólar og grunnskóli lokuðu og tekin voru á 4. þúsund sýna, en í Eyjum búa um 4.300 manns. Páley segir að þessar aðgerðir hafi skilað góðum árangri, en ekkert smit hefur greinst í bænum síðan 20. apríl. 

„Fólk sá svo árangurinn. Við fengum þessi 102 smit eftir 3 vikur, síðan bættust bara 3 við, þannig að með þessum samkomutakmörkunum og með því að vera svona hörð á því að einangra fólkið, þá náðum við bara utan um þetta.“

Hin árlegu fótboltamót krakka fara fram í Eyjum í sumar með ákveðnum takmörkunum, en enn er óvíst hvort af þjóðhátíð verður.

„Við treystum auðvitað bara æðsta yfirvaldinu í þessu, eins og aðrir landsmenn. Það fer eftir því hver niðurstaðan verður með fjölda og hvaða ákvarðanir heilbrigðisráðherra tekur. Það er bara svoleiðis,“ sagði Páley Borgþórsdóttir í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2.