Gera athugasemdir við að læknir sé gerður ábyrgur

26.05.2020 - 08:20
Getnaðarvarnar pillan
 Mynd: Fréttir
Félag íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna gerir athugasemd við að læknir sé gerður ábyrgur fyrir ávísun hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra á getnaðarvarnapillunni. Gert er ráð fyrir að reglugerð sem heimilar hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum að ávísa getnaðarvarnalyfjum taki gildi þegar frumvarp heilbrigðisráðherra til nýrra lyfjalaga verður að lögum.

Fimm umsagnir bárust í samráðsgátt um reglugerðardrög um heimildir hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra til að ávísa hormónatengdum getnaðarvarnalyfjum, um námskröfur og veitingu leyfa áður en frestur rann út. 

Skýra þurfi betur námskröfur

Félag íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna lýsir sig mótfallið breytingunum og telur þær óþarfar. Breytingar á lyfjalögum sem heimilia hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum að ávísa hormónatengdum getnaðarvörnum hafi verið samþykktar og því sé mikilvægt að reglugerð sé skýr. Félagið gerir athugasemd við að læknir sé gerður ábyrgur fyrir ávísun lyfja sem hjúkrunarfræðingur eða ljósmóðir skrifar út. Ábyrgð á lyfjaávísun eigi að vera jafnsjálfsögð og rétturinn. Þá segir félagið að kennsla í í lyfjafræði og sjúkdómafræði í reglulegu námi hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra sé ekki sambærilegt við nám lækna og því sé nauðsyn á viðbótarnámi.  

Embætti landlæknis telur að útskýra þurfi betur í reglugerðinni hvaða námskröfur séu gerðar til hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra til að fá heimild til að ávísa getnaðarvarnalyfjum. Skýra þurfi hvort krafan um framhaldsnám í reglugerðinni þurfi að vera á sviði hjúkrunar og hvað átt sé við ígildi viðbótarnáms á námstíma. Hvort þar sé átt við sérstök námskeið í grunnnámi. 

Lyfjafræðingar telja sig geta afhent lyfin

Í umsögn Lyfjafræðideildar Háskóla Íslands segir að lyfjafræðingar hafi þegar heimild til afhendingar minnstu pakkningar lyfja í neyðartilfellum þegar ekki næst í lækni án þess að fyrir liggi lyfjaávísun, meðal annars vegna neyðargetnaðarvarnar. Vegna mikils álags á heilsugæslum og skorts á hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum væri það kostur að veita lyfjafræðingum sambærilega heimild og í skýru samræmi við lög.

Lyfjafræðingar hafi mesta þekkingu á lyfjum, milliverkunum þeirra og aukaverkunum auk þess sem almenningur hafi almennt mjög greiðan aðgang að lyfjafræðingum hér á landi. Fyrir tveimur árum hafi lög verið samþykkt í Danmörku um ávísunarrétt lyfjafræðinga og lyfjafræðingar í Bretlandi og Hollandi haft í mörg ár réttindi til ávísunar lyfja, í bðaum tilvikum að undangenginni sérstakri þjálfun. 

Sjúkratryggingar Íslands telur að reglugerðin eigi eftir að valda kerfisbreytingu á lyfjagreiðsluþátttökukerfi þeirra og auka kostnað en gerir ekki aðrar athugasemdir.  
 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi