Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gætu að hámarki skimað 500 manns á dag

26.05.2020 - 15:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Sýkla- og veirufræðideild Landspítala er ekki í stakk búin til að vinna nema 500 veirsýni á dag fyrir farþega þegar skimanir á Keflavíkurflugvelli hefjast. Þetta kemur fram í skýrslu verkefnastjórnar um opnun landamæra.

Meginniðurstaða verkefnastjórnarinnar er að gerlegt sé að opna landamæri 15. júní að vissum forsendum uppfylltum. Til að setja þessa tölu í samhengi má segja að algengustu vélar Icelandair Boeing 757-200 taka 184 í sæti. Landspítalinn gæti því tæpast tekið sýni frá fólki úr þremur fullum vélum. 

Verkefnastjórnin segir að til að auka afkastagetu þurfi að bæta tækjabúnað, mönnun og aðstöðu sýkla- og veirufræðideildarinnar, en miðað við fyrirliggjandi áætlanir er í fyrsta lagi hægt að auka afkastagetu í 1000 sýni á dag eftir miðjan júlí.

Verkefnastjórnin segir að jafnframt þurfi að líta til þess að ef upp koma hópsýkingar og smit eykst í samfélaginu munu þau sýni hafa forgang fram yfir sýni úr einkennalausum komufarþegum. Verkefnastjórnin segir að aðkoma annarra greiningaraðila sé mögulegt úrræði til að auka greiningargetuna en ekki hefur verið lagt mat á hver sú samanlagða greiningargeta gæti verið. 

Verkefnastjórnin segir að sú óvissa sem ríkir um fjölda komufarþega eftir 15. júní gæti orðið til þess að fyrirheit um að taka sýni hjá öllum komufarþegum yrði varpað fyrir róða og það myndi valda hættu. 

Kostnaður á hvert sýni er áætlaður undir 50 þúsund krónum svo framarlega sem tekin eru fleiri en 107 sýni á dag. Kostnaðurinn fer lækkandi með fjölgun sýna og er tæpar 23 þúsund krónur miðað við 500 sýni á dag.