Fyrsta tískusýningin í stafrænum heimi Animal Crossing

Mynd með færslu
 Mynd: Reference Festival - YouTube

Fyrsta tískusýningin í stafrænum heimi Animal Crossing

26.05.2020 - 16:10
Þar sem samkomubann er enn í gildi víða í heiminum hafa margir brugðið á það ráð að halda viðburði í heimi tölvuleikja. Hvort sem um er að ræða tónleika eða íþróttaleiki þá hafa hinir ýmsu tölvuleikir orðið ný heimili fyrir fjölbreytta viðburði. Nú hefur fyrsta tískusýningin verið haldin í tölvuheimi Animal Crossing.

Tölvuleikurinn Animal Crossing: New Horizons kom út í mars á þessu ári, í miðjum heimsfaraldri, og var ekki lengi að verða fyrsti tölvuleikurinn til þess að seljast í 5 milljón rafeintökum á innan við mánuði. Leikurinn kom fyrst út fyrir tuttugu árum síðan en þessi nýjasta uppfærsla hefur slegið í gegn og selst í um 13 milljónum eintaka. 

Leikurinn kemur úr smiðju tölvuleikjarisans Nintendo og gengur út á það að skapa sína eigin persónu og eyðieyju þar sem notendur taka þátt í því að mynda samfélag, safna auðlindum, smíða verkfæri og dunda sér við að veiða skordýr og fiska, svo fátt eitt sé nefnt. 

Ekki nóg með það að spilarar geti búið til sína eigin eyðieyju, smíðað hús og byggt upp samfélag þá geta þeir líka hannað sinn eigin fatnað. Ólíkt mörgum tölvuleikjum þar sem aðeins er hægt að gera ákveðnar breytingar á fatnaði þeirrar persónu sem notendur spila með þá býður Animal Crossing upp á það að hanna fatnað alveg frá grunni. 

Tískuiðnaðurinn var ekki lengi að grípa þetta tækifæri og fjölmargar Instagram síður hafa verið að birta fatnað sem hannaður hefur verið í Animal Crossing og er jafnvel  innblásinn af hönnun frá merkjum á borð við Dior og Louis Vuitton. Þá hafa fatahönnuðirnir Valentino, Anna Sui og Sandy Liang tekið þátt í því að hanna fatnað sem er í boði fyrir notendur leiksins. 

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

A post shared by Valentino (@maisonvalentino) on

Nú hefur þýska tískufyritækið Reference Festival tekið næsta skref og haldið rafræna tískusýningu með persónum úr Animal Crossing íklæddar fatnaði sem innblásinn er af Loewe, Prada og GmbH. Hugmyndasmiðirnir eru Kara Chung sem rekur einn af vinsælustu Animal Crossing Instagram aðgöngunum og stílistinn Marc Goehring. 

Útkoman er þriggja mínútna langt myndband þar sem Animal Crossing persónur ganga tískupallinn við dúndrandi tónlist og lófaklapp frá bleikum refum, svínum, kanínum og öðrum krúttlegum dýrum. 

Í viðtali við Vogue segir Goehring að þrátt fyrir að þetta hafi verið skemmtilegt verkefni þá sé ólíklegt að þarna sé komin staðgengill fyrir tískuvikur og tískusýningar. Þetta hafi bara verið skemmtilegt samstarf milli tískubransans og tölvuleikja. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Bjóða upp á tónlistarhátíð í tölvuheimi Minecraft

Menningarefni

Deilt um heilindi marðarhundsins á eyðieyjunni