Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Flogið með málaliða frá Bani Walid

26.05.2020 - 09:36
epa08135422 A security guard is seen reflected on a window's car as Commander of the Libyan National Army (LNA) Khalifa Haftar leaves after his meeting with Greek Foreign Ministrer Dendias in Athens, Greece, 17 January 2020. Gen. Haftar is visiting Athens where he is expected to meet with Greek Prime Minister Mitsotakis.  EPA-EFE/YANNIS KOLESIDIS
Líbíski stríðsherrann Khalifa Haftar. Mynd: EPA-EFE - ANA-MPA
Allt að sextán hundruð rússneskir málaliðar hafa flúið frá átakasvæðum í kringum Trípólí, höfuðborg Líbíu, og verið fluttir þaðan burt.

Þetta fullyrða ráðamenn í Trípólí og segja að rússneskar flutningaflugvélar hafi komið til borgarinnar Bani Walid, suður af höfuðborginni, í gær og fyrradag til að sækja mennina.

Líbísk sjónvarpsstöð sýndi í gær myndir af vopnuðum mönnum fara um borð í herflutningaflugvél og sagði þær staðfesta brottflutning málaliða.

Harðir bardagar hafa geisað í kringum höfuðborgina síðan í fyrra vor, milli sveita stríðsherrans Khalifa Haftar og sveita alþjóðlegra viðurkenndra stjórnvalda í Trípólí.

Haftar hefur notið stuðnings frá Rússum og samkvæmt gögnum frá sameinuðu þjóðunum, sem nýlega var lekið, sendi rússneskt öryggisfyrirtæki, Wagner-hópurinn, málaliða honum til aðstoðar í fyrra og hittiðfyrra.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV