Fjórir sérfræðingar gætu unnið utan ráðuneytis

26.05.2020 - 08:30
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Forsætisráðherra telur að hægt væri að auglýsa stöðugildi fjögurra sérfræðinga ráðuneytisins án staðsetningar yrðu störfin laus til umsóknar. Þetta kemur fram í svari ráðherra við fyrirspurn frá Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um aðgerðaáætlun byggðaáætlunar.

Ráðuneytið hafi nýlokið við að skilgreina störf sem hægt væri að vinna utan ráðuneytisins. Ekki hafi verið ráðið í starf utan höfuðborgarsvæðisins í samræmi við áætlunina. 

Í byggðaáætluninni er gerð krafa um að fimm prósent auglýstra starfa skuli vera án staðsetningar fyrir árslok 2021 og tíu prósent fyrir árslok 2024. Albertína spurði ráðherra hvort ráðuneytið hefði mótað sér áætlun til að uppfylla þessa kröfu. Í svari ráðherra kemur fram að ráðuneytið hafi lokið við að greina þau störf sem unnt væri að auglýsa án staðsetningar. Greiningin taki mið af þeim störfum sem nú sé sinnt í ráðuneytinu. Þróun á fjölda starfsmanna ráðist af fjárveitingum, þróun verkefna og ákvörðunum um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta, ásamt starfsmannaveltu. Byggt verði á greiningunni þegar störf verði auglýst laus til umsóknar í ráðuneytinu og ný störf sömuleiðis. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi