Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fimmtán hundruð fjölbreytt störf fyrir námsmenn

Mynd: Viðar Hákon / RÚV
Vinnumálastofnun auglýsti í dag fimmtán hundruð sumarstörf hjá ríkinu fyrir námsmenn. Störfin eru afar fjölbreytt. Meðal annars er hægt að fá vinnu við að telja maura, brjótast inn í tölvukerfi, bera saman gufusprengingar, skilgreina víðerni og svo líka öllu hefðbundnari störf. 

2,2 milljarðar króna í 3000 störf

Störfin eru hluti af viðspyrnu stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Þegar ráðherrar kynntu annan efnahagspakka ríkisstjórnarinnar voru kynntar þrenns konar aðgerðir til að auka náms- og starfsmöguleika námsmanna. 

800 milljónum á að veita í sumarnám, 300 milljónum í nýsköpunarsjóð námsmanna og svo 2,2 milljörðum króna í að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn hjá hinu opinbera sem jafngilda á 3000 störfum. 

Sumarstörf sveitarfélaganna eru auglýst vefsíðum þeirra. Þau hljóta að vera um 1500 talsins því að í dag opnaði Vinnumálastofnun og félagsmálaráðuneytið fyrir umsóknir um 1500 störf hjá ríkinu og stofnunum þess. 

Störf: Leita að maurum og gera netárásir 

Mörg störfin eru hefðbundin skrifstofustörf og í flestum er leitað eftir námsmönnum í ákveðnum greinum. En svo eru störf sem eru ekki svo hefðbundin.

Það er til dæmis starf við að finna og greina maura í Reykjavík og nágrenni á vegum Háskóla Íslands. Starf við að búa til umhverfi til að leika eftir netárás og innbrot í tölvukerfi fyrir Póst- og fjarskiptastofnun en tekið er fram að framvísa þurfi sakavottorði. Þá er starf við að bera saman jarðskjálftagögn um gufusprengingar hér og á Nýja-Sjálandi fyrir Veðurstofuna. Og fyrir umhverfisráðuneytið er hægt að vinna við að undirbúa skilgreiningu á víðernum utan miðhálendisins. Og þá vantar starfsmann til rannsaka feðrun og ofbeldi í nánum samböndum fyrir Háskóla Íslands. Skrifa upp texta eins handrita Grettis sögu fyrir Árnastofnun, greina viðtöl við þolendur og gerendur eineltis fyrir Háskóla Íslands og mæla styrk rafseglusviðs við spennistöðvar fyrir Geislavarnir ríkisins. 

Umsóknarfrestur að renna út

Og nú þurfa námsmenn að hafa hraðar hendur því umsóknarfrestur fyrir langflest störfin rennur út í næstu viku.