Eyjamenn skila rekstri Hraunbúða til ríkisins

Mynd með færslu
 Mynd:
Vestmannaeyjabær ætlar ekki að endurnýja rekstrarsamning við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur hjúkrunarheimilisins Hraunbúða. Vestmannaeyingar feta þar með í fótspor Akureyringa sem sögðu sig frá rekstri hjúkrunarheimila nýverið. Önnur sveitarfélög eru að endurmeta stöðu sína gagnvart rekstri hjúkrunarheimila.

Eyjafréttir greina frá þessu. Málið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs Vestmannaeyja í gær og var samþykkt samhljóða að heilbrigðisráðherra og Sjúkratryggingum Íslands verði tilkynnt um þessa ákvörðun. Frá árinu 2010 hefur Vestmannaeyjabær greitt um 500 milljónir króna með rekstri hjúkrunarheimilisins.

Samningurinn á milli Vestmannaeyjabæjar og Sjúkratrygginga fellur úr gildi í nóvember, en endurnýjunarákvæði hans rennur út í byrjun júní. Til stendur að heilbrigðisráðherra fundi með bæjarráði um rekstur Hraunbúða í byrjun júní.

Sveitarfélög og ríki ekki á einu máli

Samkvæmt lögum um málefni aldraðra á ríkið að standa undir kostnaði af starfsemi hjúkrunarheimila en í flestum tilvikum hefur sjálfur reksturinn verið falinn sveitarfélögum eða sjálfseignarstofnunum. Um 1/3 af hjúkrunarheimilum landsins eru að öllu eða einhverju leiti rekin af sveitarfélögum, með samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Akureyrarbær gaf það út í byrjun maí að samningur við Sjúkratryggingar verði ekki endurnýjaður en gildandi samningur rennur út um næstu áramót. Óskað var eftir að samtal á milli ríkis og bæjarins færi fram um  framtíðarrekstur hjúkrunarheimila og dagþjónustu á Akureyri.

Sveitarfélög hafa ítrekað kvartað undan þungum rekstri heimilanna og hafa sum borgað hundruð milljóna með rekstrinum þar sem fjárveitingar duga ekki til. Mosfellsbær sagði upp sínum samningi árið 2017 og Seltjarnarnes neitaði að taka við rekstri nýs hjúkrunarheimilis þar í fyrra. Garðabær höfðaði mál á hendur ríkinu árið 2016 og gerði fjárkröfu sem nam uppsöfnuðu tapi af rekstri hjúkrunarheimilisins Ísafoldar. Ríkið var sýknað af kröfunum en málið er á dagskrá hæstaréttar í júní. 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi