Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ekki rétt að skylda ferðamenn til að nota appið 

26.05.2020 - 14:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Öflug smitrakning er forsenda þess að hægt sé að opna landið á meðan COVID19 faraldurinn er í gangi í heiminum. Þetta segir í skýrslu verkefnastjórnar sem kannaði möguleikann á því að hefja skimun á Keflavíkurflugvell fyrir fólk sem kemur til landsins í stað tveggja vikna sóttkvíar. 

Í skýrslu verkefnastjórnarinnar kemur fram að samhæfingarstöð almannavarna vegna COVID-19 og smitrakningarteymi almannavarna verða áfram virk í nánu samstarfi við sóttvarnalækni og önnur stjórnvöld.

Smáforritið Rakning C-19 auðveldar smitrakningarteymi almannavarna að rekja öll smit sem upp kunna að koma. Smitrakningarteymið rekur hvert tilfelli, hverjir eru útsettir fyrir smiti og utanumhald um sóttkví. Sýktir einstaklingar fara eftir sem áður í einangrun á meðan þeir eru veikir og útsettir í 14 daga sóttkví. 

Verkefnisstjórnin leggur til að allir farþegar verði hvattir til að hlaða niður Rakning C-19 smáforritinu til að auðvelda smitrakningu og til þess að hafa aðgang að upplýsingum um heilbrigðiskerfið á Íslandi. 

Hins vegar telur verkefnisstjórnin ekki æskilegt að slíkt verði skylt eða skilyrði fyrir komu til landsins. 

Sú afstaða byggist bæði á sjónarmiðum um persónuvernd og að eftirfylgni með slíkri skyldu væri ógerleg. Verkefnisstjórnin telur að mikilvægt sé að bæta inn virkni í Rakning C-19 smáforritið sem auðveldar aðgengi að upplýsingum um íslenskt heilbrigðiskerfi, meðal annars til að gera það fýsilegt að hafa forritið.

Verkefnastjórnin segir að hafa beri í huga að ef einstaklingur sýnir einkenni við eða stuttu eftir brottför frá Íslandi og reynist síðan jákvæður af COVID-19, þarf smitrakning að eiga sér stað. Tryggja þarf að upplýsingar um veikindi berist til þar til bærra yfirvalda og að nægilegar upplýsingar séu til staðar til að smitrakning geti farið fram í samráði við þarlend yfirvöld.
 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV