Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ekki einhugur meðal sveitarfélaga um friðun Eyjafjarðar

26.05.2020 - 19:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Bæjarráð Fjallabyggðar vill ekki að Eyjafjörður verði friðaður fyrir sjókvíaeldi eins og meirihluti bæjarstjórnar Akureyrar vill að verði gert. Miklir möguleikar séu til frekari þróunar í greininni en stíga þurfi varlega til jarðar.

Fyrir viku ályktaði bæjarstjórn Akureyrar um fiskeldismál í Eyjafirði og fór þess á leit við Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra að Eyjafjörður verði
friðaður fyrir fiskeldi. Tillagan var samþykkt en ekki einróma og sat meðal annars forseti bæjarstjórnar hjá við atkvæðagreiðslu málsins.

Bæjarráð Fjallabyggðar leggst eindregið gegn samþykktri bókun bæjarstjórnar Akureyrar og segir að ræða þurfi málið meðal sveitafélaga við Eyjafjörð.

Í bókun bæjarráðs segir að með uppbyggingu undanfarinna ára hafi laxeldi í sjó haslað sér völl sem mikilvæg atvinnugrein á Íslandi . Ljóst sé að miklir möguleikar séu til þróunar og vaxtar greinarinnar. Þó þurfi að stíga varlega til jarðar. Gæta þurfi að áhrifum, jákvæðum sem neikvæðum á náttúru og hugsanlegum áhrifum á aðrar atvinnugreinar sem og samfélög í heild. Því telji
 bæjarráð nauðsynlegt að gaumgæfa allar hliðar máls og að það sé best gert með öflugu samtali og samráði allra sveitarfélaga við Eyjafjörð með þátttöku
íbúa og þekkingarsamfélags. Bæjarráð Fjallabyggðar leggur til við Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hann óski nú þegar eftir mati á burðarþoli Eyjafjarðar með tilliti til fiskeldiss og að í beinu framhaldi verði unnið áhættumat fyrir erfðablöndun vegna mögulegs fiskeldis í Eyjafirði.