Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Áhætta fyrir spítalann að hefja skimanir í Keflavík

26.05.2020 - 14:37
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Það verður veruleg áhætta fyrir Landspítala í sumar að hefja skimanir á Keflavíkurflugvelli í stað tveggja vikna sóttkvíar fyrir ferðamenn sem koma hingað til lands. Spítalinn mun strax fara á hættustig með fyrsta sjúklingi sem þarfnast innlagnar, með tilheyrandi röskun á starfsemi spítalans.

Þetta kemur fram í heildarmati Landspítalans á afleiðingum af opnun landamæra. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, skrifar undir matið sem sent var heilbrigðisráðuneytinu í síðustu viku. Páll segir í matinu að Landspítali geti sinnt væntum verkefnum sem hljótast af opnun landsins fyrir ferðamönnum og áhættu sem því fylgir á útbreiðslu COVID-19.

Greining einkennalausra ekki trygging

mati verkefnastjórnar um skimun á landamærum er gerlegt að hefja skimun á Keflavíkurflugvelli 15. júní að uppfylltum vissum forsendum. Í heildarmati Landspítalans, sem byggir á áhættumati farsóttarnefndar spítalans og áhættumati rannsóknarstofu, kemur fram að greiningar einkennalausra ferðamanna séu ekki trygging fyrir því að sjúkdómurinn sé ekki til staðar. „Íslendingar eru mjög næmt þýði og því má búast við smitum,“ segir í matinu.

Í heildarmati Landspítalans segir að áhrif innlagðra sjúklinga, innlendra sem erlendra verða strax mikil á starfsemi spítalans sem almennt er dregin niður yfir sumartímann og eins má gera ráð fyrir aukinni þjónustuþörf erlendra ferðamanna sem kunna að veikjast, þótt sérstaklega verði reynt að huga að stuðningi við þann hóp.

Í minnisblaði Rannsóknarstofu Landspítalans segir að opnun landsins muni hafa í för með sér allverulegan stofnkostnað fyrir veirufræðideildina, bæði kaup á tækjum, sem tekur tíma að fá og setja upp, auk húsnæðisbreytinga sem eftir á að áætla tíma og kostnað við. Í öðru lagi þá þarf að huga sérstaklega að birgðastöðu. Í þriðja lagi þarf að huga að mönnun við verkefnin.

Opna þyrfti farsóttarhús að nýju

Í skýrslu verkefnastjórnarinnar segir að upplýsingagjöf til ferðamanna sé mikilvægur hluti við opnun landamæra. Virkja þurfi betur Rakning C-19 smáforritið og bæta við upplýsingar til ferðamanna í því. Þá þykir ljóst að hafa þarf til staðar farsóttahús fyrir einstaklinga sem ferðast inn í landið og eru mögulega smitaðir. Í heildarmati Landspítala segir að ljóst sé að leggja þurfi áherslu á tryggingamál sjúklinga. Kostnaður geti orðið mikill hjá einstaklingum með COVID-19 veikindi á spítalanum. Gera þurfi skýlausa kröfu um fullnægjandi tryggingar þegar fólk ferðast inn í landið.