Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

5.000 kallinn frá stjórnvöldum fyrst og fremst táknrænn

26.05.2020 - 09:25
Þórdís Kolbrún á fundi SAF 26.5.20
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra á fundi SAF Mynd: Skjáskot/SAF
5.000 króna ferðagjöf stjórnvalda er fyrst og fremst táknræn aðgerð. Þetta sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í upphafi kynningarfundar Samtaka ferðaþjónustunnar og Ferðamálastofu sem nú stendur yfir.

Á fundinum er farið yfir útfærslu á ferðagjöfinni, en ráðherrann mælti fyrir frumvarpi um hana á Alþingi í gær.

„Við áttum okkur á því að 5.000 krónur til allra Íslendinga 18 ára og eldri breyta ekki hvort fyrirtæki lifa eða deyja. Þetta er fyrst og síðast táknræn aðgerð,“ sagði Þórdís Kolbrún í upphafi fundarins. „En þetta mun skipta máli, sérstaklega fyrir fyrirtæki með minni afkastagetu.“

 

Gert er ráð fyrir að inneignin verði í formi smáforrits í farsíma og hana fái um 250 þúsund manns. Þetta mun kosta ríkissjóð allt að einn og hálfan milljarð. Inneignin gildir frá júníbyrjun til áramóta og verður hægt að nýta hana hjá ferðaþjónustufyrirtækjum með starfsstöð á Íslandi.

Leyfilegt er að gefa ferðagjöfina áfram og hver einstaklingur getur greitt með allt að 15 ferðagjöfum. Hverju fyrirtæki er heimilt að taka við 100 milljón króna greiðslu að hámarki; 20.000 ferðagjöfum.

 

Tvíþættur tilgangur

Þórdís Kolbrún sagði að tilgangur framlagsins væri tvíþættur; annars vegar að hvetja fólk til að ferðast um landið og hins vegar að gefa ferðaþjónustufyrirtækjum kost á að bjóða mótframlög í formi tilboða og annars slíks, en þess væri þegar farið að gæta.  „Við sjáum strax að fyrirtækin hafa farið á fullt,“ sagði Þórdís Kolbrún og sagðist stolt af þessu framtaki stjórnvalda.

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir