Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Stuðningur við ríkisstjórnina dvín

25.05.2020 - 16:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stuðningur við ríkisstjórnina mælist 47,5% í nýrri könnun MMR og hefur minnkað um 7 prósentustig frá síðustu könnun þegar hann var rúmlega 54%. Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur flokka með 23,5% og hefur bætt við sig einu prósentustigi frá því í apríl. Næstir koma Píratar, sem 14,6% segjast myndu kjósa nú, og er það þremur prósentustigum meira en í síðustu mælingu MMR.

Samfylkingin sækir líka heldur í sig veðrið og nýtur stuðnings 13,3%; 12,3% í síðustu könnun.

Viðreisn og VG dala

Fylgi Viðreisnar er 11,3%, einu prósentustigi minna en það var  í apríl. Miðflokkurinn nýtur hylli 10,8%, rúmu prósentustigi meira en síðasta mánuði. Vinstri græn eru með 10,6% fylgi nú, einu prósentustigi minna en í apríl. Fylgi Framsóknarflokksins mælist nú 6,4%, þremur prósentustigum minna en síðast og hefur ekki mælst svo lítið frá kosningum, að því segir í tilkynningu MMR. Sósíalistaflokkur Íslands fær stuðning 4,1% í könnuninni svipað og fyrir mánuði og fylgi Flokks fólksins mælist 3,6%. 

 

Könnunin var gerð 19. til 25. maí, 944 úr hópi álitsgjafa MMR svöruðu.