Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Starfsmaður grunnskóla grunaður um kynferðisbrot

25.05.2020 - 19:04
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Starfsmaður í Hraunvallaskóla í Hafnarfirði hefur verið leystur frá störfum vegna lögreglurannsóknar sem snertir starfsmanninn. Þetta staðfestir samskiptastjóri Hafnarfjarðar. Bærinn veitir ekki frekari upplýsingar um málið þar sem það er á rannsóknarstigi.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 kom fram að starfsmaðurinn vinnur í Hraunseli, frístundaheimili sem tengist skólanum. Hann sé grunaður um að hafa brotið kynferðislega gegn tveimur nemendum í 1. bekk í síðustu viku. Samkvæmt frétt Stöðvar 2 og Vísis barst lögreglu tilkynning frá Barnaspítala Hringsins um hugsanlegt brot mannsins gagnvart barni. Við rannsókn lögreglu hafi komið í ljós að um tvö börn væri að ræða.

Lögregla krafðist gæsluvarðhalds til 28. maí en Héraðsdómur Reykjaness féllst á varðhald til 26. maí. Sá úrskurður var kærður til Landsréttar, sem felldi hann úr gildi á föstudag og var maðurinn því látinn laus. Í niðurstöðu Landsréttar, sem birtur hefur verið á vef réttarins, segir að lögregla hafi ekki sýnt fram á að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að maðurinn sé í haldi.

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV