Síðasti upplýsingafundurinn í bili

25.05.2020 - 11:49
Síðasti upplýsingafundur Almannavarna vegna COVID 19, í bili, verður haldinn í dag.  Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, Alma D. Möller, landlæknir og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn fara yfir stöðu mála.

Gestir fundarins verða Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra. 

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði á upplýsingafundi á miðvikudag að neyðarstigi yrði aflétt í dag og reglulegum upplýsingafundum hætt. Komi upp hópsýking verði aftur farið á neyðarstig, þó með öðrum hætti en hefur verið að undanförnu. Neyðarstigi yrði þá beitt staðbundið, jafnvel í einstaka sveitarfélagi en ekki í landinu öllu.

„Til þess að fara aftur upp á neyðarstig á öllu landinu þá þyrftum við að vera með töluverða samfélagslega útbreiðslu í smitunum. Við höfum ekki sett neina tölu á bakvið það. Það verður ávallt mat okkar sóttvarnarlæknis hvernig það verður unnið,“ segir Víðir. 

Þrjú smit hafa greinst hér á landi undanfarna viku, tvö þeirra utan sóttkvíar. 

 
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi