Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Sefandi söngvaskáld

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
 Mynd: Bjørn Giesenbauer - Skrifstofuplanta

Sefandi söngvaskáld

25.05.2020 - 09:18

Höfundar

Skrifstofuplanta er plata eftir Svein Guðmundsson, söngvaskáld, sem leggur sig eftir lágstemmdri en þó knýjandi stemningu. Skrifstofuplantan er plata vikunnar á Rás 2.

Ég var í doktorsnámi í Edinborg árið 2014 þegar ég fæ póst frá öðrum doktorsnema en sá var staddur á Íslandi. Sveinn nokkur Guðmundsson hafði þá nýverið gefið út hina sérkennilega nefndu Fyrir herra Spock, MacGyver og mig og vildi vekja á henni athygli (kom út 2013). Ég smellti nokkrum orðum inn á arnareggert.is og lýsti tónlistinni sem „rólyndis gítarmúsík“ eins og Sveinn sjálfur gerði. Ég hjó líka eftir sniðuglega ortum textum, varpandi skemmtilegu ljósi á lífið og tilveruna (eitt lagið heitir „Ást eða ælupest“).

Skerpt á sýninni

Sveinn snýr nú aftur með nýtt verk í farteskinu, breiðskífuna Skrifstofuplanta. Platan var tekin upp í hljóðverinu Aldingarðurinn og var það Magnús Leifur Sveinsson, fyrrum forsprakki Úlpu, sem sá um hljóðstjórn og leikur hann einnig á nokkur hljóðfæri á plötunni.

Skemmst frá að segja heldur Sveinn áfram með þann hljóðheim sem var að finna á fyrstu plötunni en það er um leið búið að skerpa á ýmsu, röddin orðin öruggari og hin listræna sýn sömuleiðis. Þetta er um margt nokkuð sérkennilega plata og stíllinn í raun einstakur. Kemur þá helst til söngrödd Sveins, sem er einkar lágvær og nánast hvíslandi. Gætileg gætum við líka sagt og fraseringar/hendingar með óvenjulegu móti. „Ábót“, upphafslagið, er rólegt. Skríður áfram, rökkurbundin kvöldvísa. Textinn er fallegur og Sveini tekst að mála upp eftirtektarverða mynd. „Drasl“ er kerknislegra en bundið á sama klafa, ofurrólegt og í zen-gír eiginlega. Sveinn hækkar röddina í viðlaginu og gerir það vel.

Við þetta lag er maður dálítið sokkinn inn í þessa ljúfu stemningu sem yfir plötunni er. Ljúf en samt undarleg. Magnús Leifur skreytir framvinduna gjarnan með smekklegum rafhljóðum sem lúra á bakvið. „Húð og hár“ er nánast óbærilega lágstemmt, er þarna varla, og um það leikur gotneskur blær. Ég hugsaði um Joy Division (ætli það sé ekki bassinn sem er ofarlega í hljóðblandinu en þarna er líka einslags jarðarfararhljómborð). Hvort sem var viljandi eður ei birtir nokkuð til undir restina. „Veiðimenn og safnarar“ er hefðbundið og það er smá Spilverk í gangi. Tja, ef allir meðlimir hefðu tekið 2,3 valíum (lesist sem hrós!). Titillagið er óvenju hressilegt og þeir félagar bregða dálítið á leik í útsetningu. Hálfgert rokk eiginlega og vel til fundið og heppnað.

Aðlaðandi verk í það heila, með einhverju óútskýranlegu, hliðstæðulausi „x“-i sem trauðla verður sett fingur á. Og, bara vel af sér vikið. Góð plata sem stendur keik.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Einlægt, óskrifað blað

Popptónlist

Einlægt nútímapopp

Popptónlist

Einlægt og ágengt

Tónlist

Einlægt og heiðarlegt verk