Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Reykjavíkurdætur - Soft Spot

Mynd: Reykjavíkurdætur / Reykjavíkurdætur

Reykjavíkurdætur - Soft Spot

25.05.2020 - 14:55

Höfundar

Soft Spot er önnur breiðskífa Reykjavíkurdætra þar sem þær velta fyrir sér kostum og göllum þess að vera ung kona. Á plötunni rappa þær um samfélagsmiðlakvíða, peninga, vinasambönd og barneignir. Soft Spot segja dæturnar að sé langpersónulegasta útgáfa sveitarinnar. Þær kafi meira inn á við í textagerð, auk þess sem megin þorri plötunnar er taktsmíðaður og útsettur af Sölku Valsdóttur.

Reykjavíkurdætur mættu með læti inn í íslenska tónlistarsenu árið 2013. Ferill þeirra hófst með hinum svokölluðu Rappkonukvöldum sem haldin voru til að skapa pláss fyrir konur í rappsenu landsins. Verkefnið fékk strax mikla athygli, meðbyr í fyrstu, sem seinna snerist í mótbyr. Fljótlega fór fólk að smjatta á hinu og þessu sem því þótti hneykslanlegt við þennan fyrirferðamikla hóp kvenna. Kvenna sem stormuðu inn á sjónarsviðið, sexí, grófar, sjarmerandi, næmar og sögðu það sem þær vildu, þegar þær vildu.

Á síðustu árum hefur hljómsveitin farið frá því að segja forsætisráðherra að sjúga á sér snípinn í Ríkissjónvarpinu í að koma fram á mörgum stærstu tónlistarhátíðum heims, setja upp leikrit í Borgarleikhúsinu, hljóta hin virtu MME verðlaun (áður EBBA) og nú síðast gefa út vinsælt hlaðvarp sem hlotið hefur glás af jákvæðri athygli frá erlendum miðlum. Reykjavíkurdætur hafa áður gefið út eina breiðskífu, eitt mix tape og fjöldan allan af singúlum með tónlistarmyndböndum. Þær hlutu réttlætisviðurkenningu Stígamóta árið 2014 og sérstaka viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu frá menntamálaráðuneytinu 2019. Þar að auki hafa þær verið tilnefndar til Íslensku tónlistarverðlaunanna, Hlustendaverðlaunanna og Kraum-verðlaunanna.

Reykjavíkurdætur eru níu konur með ólíkan listrænan bakgrunn en innan sveitarinnar má finna leikkonur, klassískan píanista, grafískan hönnuð, hljóðmann, útvarpskonu, sjónvarpskonu, myndlistarkonu og danshöfund svo eitthvað sé nefnt. Það sem sameinar þær er fyrst og fremst tónlistin en líka óþreytandi löngun til að skemmta sér og öðrum.

Plata vikunnar að þessu sinni er ný plata Reykjavíkurdætra, Soft Spot, en þú getur hlustað á hana í heild sinni í spilara hér að ofan ásamt kynningum dætranna á tilurð laganna.

Mynd með færslu
Reykjavíkurdætur - Soft Spot